spot_img
HomeFréttirÞvílíkur leikur – Þvílíkt drama – Þvílík fegurð!

Þvílíkur leikur – Þvílíkt drama – Þvílík fegurð!

Vafalaust hafa margir búist við Íslandsmeisturum Grindvíkinga grimmum í Schenker-höll Hauka í kvöld eftir slæmt tap heima gegn KR. Þrátt fyrir flottan sigur Haukamanna á Valsmönnum í fyrstu umferð hefði þægilegur sigur Íslandsmeistaranna tæplega komið á óvart. En sú varð heldur betur ekki raunin og liðin buðu upp á einn svakalegasta leik sem undirritaður hefur nokkurn tímann augum barið!
 
 
Liðin voru svolitla stund að leita að körfunum í byrjun leiks. Grindvíkingar voru fyrri til að finna sína og var Þorleifur heitur í byrjun. Í stöðunni 14-22 leit þetta mjög vel út hjá Íslandsmeisturunum en þá hófst Hauks þáttur Óskarssonar. Drengurinn var logandi og með góðri vörn og ,,and1“ frá Watson stóðu leikar 22-22 eftir fyrsta. Hilmir átti körfu tímabilsins með ,,bakvið-spjaldið-frá-Keflavík-LeBron-James-körfu“ en tíminn var því miður liðinn. Þvílík synd en engan grunaði að þetta átti eftir að endurtaka sig…
 
Það var allt í járnum í öðrum leikhluta. Bæði lið sýndu flotta takta bæði í vörn og sókn. Haukur Óskarsson var enn logandi og var allt í öllu hjá Haukum. Ólafssonum leiðist ekkert að skjóta þristum en fleiri lögðu einnig í púkkið hjá gestunum. Hnífjafnt var í hálfleik, 43-43. Var mál manna Grindavíkurmegin að erlendur leikmaður þeirra væri tæplega frímerkisins virði en hann náði sér ekki vel á strik.
 
Þriðji leikhluti var stórkostlega skemmtilegur. Ólafssynir sönnuðu að ber er hver að baki nema sér bróður eigi, Ólafur blokkaði Barja allsvakalega í hraðaupphlaupi og Þorleifur splæsti í fallegan þrist 2 sekúndum síðar. Fimm stiga sveifla. Watson svaraði fyrir Hauka með því að troða illilega yfir Sigga Þorsteins og enn allt jafnt, 48-48! Þá fékk Barja dæmda á sig óíþróttamannslega villu og kominn með fjórar. Af ástæðum sem undirritaður þekkir ekki urðu áhorfendur í kjölfarið vitni að hjartnæmu sjónarspili er Barja hvatti félaga sína hvern á fætur öðrum og lét sig svo hverfa úr salnum. Haukur Óskarsson spilaði áfram vel en Watson tók við hitanum og skoraði grimmt. Haukar leiddu 66-61 eftir þriðja.
 
Haukar lentu í talsverðu basli sóknarlega í fjórða leikhluta en allnokkur sóknarfráköst og tveir fallegir þristar frá Kára gerðu það að verkum að Grindvíkingar gerðu ekki meira en að jafna leikinn. Staðan 79-80 þegar 2:20 lifðu leiks (nema svo ólíkega myndi vilja til að framlengt yrði). Liðin settu þá nokkur víti og Lalli og Davíð hvor með sinn þristinn, staðan 85-84 eftir þau viðskipti og 43 sekúndur eftir. Óli vildi ekki vera minni maður en brósi og setti þrist en Watson jafnaði á línunni í 87-87 og 25 sekúndur eftir. Grindvíkingar geiguðu á skoti í lokin en Siggi Þ náði boltanum á undraverðan hátt af nafna sínum hjá Haukum og setti boltann ofan í og dæmd var villa um leið! Ekki ætla ég að deila við dómarana en eftir að þeir höfðu gluggað í upptöku af atvikinu var flautað til framlengingar! Þvílík dramatík!
 
Í framlengingunni sá Jói um stigaskorun fyrir gestina með fjórum vítum í þremur ferðum á línuna. Watson setti tvo tvista fyrir heimamenn og enn jafnt, 91-91. Grindvíkingar áttu svo síðustu sóknina, skotið geigaði en Ómar Sævars tók frákastið og setti buzzer skot spjaldið ofan í og mikið fagnað Grindavíkurmegin! En var tíminn liðinn? Eftir aðra ferð dómaranna í vélina var flautað til annarrar framlengingar!
 
Gríðarleg spenna í húsinu og mikið var að gera á kústinum sem ,,Rafgeymasalan“ bauð myndarlega upp á. Vallarþulurinn hafði staðið sig afar vel og stuðlaði að prúðmennsku áhorfenda á milli þess sem hann greindi frá helstu atburðum leiksins og útskýrði flóknari atriði íþróttarinnar er á þurfti að halda. Hann lét minna til sín taka í framlengingunni enda spennan óbærileg!
 
Framlenging tvö varð söguleg. Ólafssynir tóku við stigaskorun hjá Grindavík en Sigurður Þór hafði greinilega jafnað sig síðan í lok fjórða og setti ,,and1“ og Haukur hinn heiti einnig enn að gera vel. Það vakti athygli að Timmons var kominn inn á eftir að hafa verið geymdur á bekknum meira og minna í seinni hálfleik en það gæti tengst því að Siggi Þorsteins hafði fengið sína fimmtu villu í lok fyrri framlengingar. Timmons sannaði hið fornkveðna að lengi skal manninn reyna og setti 4 stig í röð og kom gestunum í 99-102 og mínúta eftir! Þá tók fyrrnefndur Sigurður Þór það til bragðs að negla ,,downtown“ þristi frá Garðabæ og fá vítaskot að auki! Það fór að vísu ekki niður, staðan 102-102. Loksins lauk svo leik með vítaskoti frá Lalla, stoppi í vörninni og Timmons setti svo eitt víti til viðbótar í blálokin. Ótrúlegur 102-104 sigur gestanna í höfn…loksins!
 
Ekki ætla ég að telja upp afrek leikmanna sérstaklega og bendi á ,,stattið“ – í svona leik má segja að allir spiluðu frábærlega, líka dómararnir.
 
Ekki treysti ég mér til að ráða í framvindu mála ef Petr Baumruk, húsvörðurinn snjalli, hefði verið á staðnum en hann var hvergi sjáanlegur!
Það er hins vegar nokkuð ljóst að hefði Svali Björgvins verið á leiknum hefðu áhorfendur fengið ,,strip-show“ í kaupbæti í Schenker-höllinni í kvöld. Undirritaður krefst þess að bæði lið fái 2 stig – ef ekki þrjú – fyrir þessa stórkostlegu undraverðu skemmtun. Körfubolti er og verður móðir allra íþrótta!
 
Umfjöllun: Kári Viðarsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -