Þór vann þriðja leikinn í röð í kvöld þegar þeir báru sigurorð af Fjölni 71 – 70 í æsi spennandi leik sem fram fór í Síðuskóla í gærkvöld.
Það voru aftur á móti leikmenn Fjölnis með Darius Sims í fararbroddi byrjuðu leikinn af miklum krafti og náðu fljótt 6 – 13 forystu. Það tók heimamenn töluverða stund að ná áttum í upphafi leiks en smá saman komust heimamenn í takt við leikinn en fremstir í flokki fóru þeir kumpánar Ólafur Aron og Jarrel Crayton. Vörnin small saman og þar af leiðandi náðu strákanir okkar nokkrum auðveldum stigum sem skiluðu sér í 13-4 spretti. Jarrell Crayton endaði fjórungin með viðeigandi hætti með smá loftfimleikum og staðan því 21 – 17 fyrir Þór.
Fjölnismenn hins vegar mættu grimmir til leiks í öðrum leikhluta og með góðum 4-9 spretti náðu Fjölnismenn aftur forystunni, 25-28. Smá saman náðu gestirnir yfirhöndinni og áður en fyrri hálfleik lauk voru gestirnir komnir með 5 stiga forskot, 35 – 40
Síðari hálfleikur byrjaði mjög svipað og fyrri hálfleikur. Fjölnismenn skrefinu á undan heimamönnum og héldu forskotinu í 5 stigum lengi vel. Þórsarar náðu þegar líða tók á fjórðungin að bíta frá sér og með góðri baráttu náðu þeir aftur forystunni, 50 – 48. Hins vegar voru heimamenn ekki mikið í að stíga Fjölnismenn út í varnarleiknum og gáfu þar af leiðandi Fjölnismönnum of mörg sóknarfráköst. Þórsarar náðu þó að halda forystu sinni, 55 – 54 fyrir fjórða og síðasta fjórðung.
Fjölnismenn með Davíð Inga í farabroddi byrjuðu fjórða leikhlutann af krafti og skoruðu 9 fyrstu stig fjórðungins og voru því skyndilega komnir með 8 stiga stiga forskot, 55-63. Það má segja að hlutirnir hafi ekki litið vel út fyrir heimamenn, en gestirnir virtust vera með leikinn algjörlega í hendi sér. Hlutirnir geta breyst fljótt í þessari yndislegu íþrótt og með mikilli baráttu náðu strákarnir að snúa við blaðinu með að skora 6 stig í röð og jafna leikinn, 66 – 66. Síðustu tvær mínúturnar voru því afar spennandi. Elías Kristjánsson virtist vera á góðri leið með að innsigla sigur heimamanna er hann setti þrist niður þegar einungis 50 sekúndur voru eftir og staðan 71 – 69. Í næstu sókn gestanna var brotið á Darius Sims sem fór á vítalínuna. Í staðinn fyrir að jafna leikinn, misnotaði Darius bæði skot sín og Sveinn Blöndal virtist vera að tryggja sigurinn er hann reif niður frákast og brotið virtist vera á honum í leiðinni. Sveinn virtist vera eitthvað ósáttur og virtist hafa sagt eitthvað sem ágætum dómurum leiksins mislíkuðu og fyrir vikið gáfu þeir Sveini ásetningsvillu. Afar klaufalegt, og skyndilega stóðu gestirnir með pálmann í höndunum. Hins vegar voru vítaskotin afa dýr fyrir gestina en Garðar Sveinbjörnsson hitti einungis úr öðru vítaskoti sínu. Í staðinn fyrir að ná forystunni, náði Elías að komast inn í sendingu gestanna þegar um 26 sekúndur voru eftir. Þórsliðið sýndi mikla skynsemi í að éta leiktímann niður og Ólafur Aron misnotaði síðan skot rétt áður en skotklukkan rann út sem skipti litlu máli þar sem of lítill tíma var fyrir Fjölnismenn að gera eitthvað. Þórsarar fögnuðu því eins stigs sigri, 71 – 70 og tylltu sér því á topp deildarinnar með sex stig.
Ekki er hægt að segja að leikurinn í kvöld hafi verið augnayndi en Þór er varla að kvarta yfir sigri. Tímabilið er auðvitað rétt hafi og margt hægt að laga í leik liðsins, en einna helst verða strákarnir að stíga betur út í vörninni. Fjölnismenn tóku allt of mörg sóknarfráköst en alls tóku þeir 14 stykki. En það voru líka góðir punktar inn á milli. Jarrell Crayton, nýji bandaríkjamaðurinn í liði Þórs sýndi af og til fína tilburði, bæði sókn og vörn. Aðallega var gaman að sjá að Crayton var býsna öruggur á skotum sínum af millifærinu en það sást að maðurinn var alveg búinn á því undir lok leiksins, enda fékk hann einungis tvær mínútur í hvíld. Einnig var gaman að sjá Ólaf Aron en Fjölnir réði ekkert við hann þegar hann grimmur og keyrði upp að körfunni. Mætti alveg gera þetta mun oftar. Það er í raun ekki hægt að setja út á neinn leikmann Þórs, allir skiluðu sínu þokkalega og sýndu mikla baráttu.
Stig Þórs gerðu: Jarrell Crayton 21, Ólafur Aron Ingvason 15, Elías Kristjánsson 11, Sindri Davíðsson og Vic Ian Damasin 8 stig hvor, Svenn Blöndal 5, Björn Benediktsson 2 og Sigmundur Óli Eiríksson1.
Í liði gestanna voru þeir Darius Sims og Davíð Ingi mest áberandi en Darius Sims var með 23 stig og 14 fráköst á meðan Davíð Ingi var með 15 stig, Garðar Sveinbjörnsson og Páll Fannar Helgason með 10 stig hvor.
Staðan í deildinni
Umfjöllun/ SKP



