„Okkur hefur ekki gengið að ná sigrum inn á móti Grindavík á Ásvöllum en liðinu hefur svo sem gengið ágætlega í Grindavík. Ég las það einmitt fyrir leikinn að síðasti sigur gegn Grindvíkingum hafi komið árið 2007 á Ásvöllum en við verðum þá bara á móti að halda áfram að vinna í Grindavík,“ sagði Emil Örn Sigurðarson aðstoðarþjálfari Hauka í samtali við Karfan.is í gær eftir ótrúlega spennandi leik gegn Grindavík í Domino´s deild karla. Tvíframlengja þurfti leikinn.
„Leikirnir milli þessara liða eru oftast skemmtilegir og það er alltaf gaman að mæta Grindavík því maður getur einhvernveginn aldrei sagt til um hvernig fer eins og sást í þessum leik í kvöld. Sigurinn hefði auðveldlega getað ratað okkar megin og brúnin hefði að sama skapi verið léttari eftir leikinn,“ sagði Emil en var það mögulega reynsluna sem vantaði eða bara heppni til að klára dæmið?
„Liðið er ekki það reynslu mesta í deildinni en reynslan jókst með tilkomu Svavars Páls. Annars hafa þessir strákar spilað ófáa deildarleikina í meistaraflokki og leikur sem þessi skilar helling í bankann. Mig langar ekkert endilega að skrifa tapið í kvöld sem reynsluleysi heldur frekar sem óheppni en það er alltaf auðvelt að skella eitt stykki EF þarna inn í einhverstaðar,“ sagði Emil Örn en hvernig var sjóferð nafna hans háttuð að hann varð að yfirgefa leikinn?
„Emil Barja fékk dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að brjóta á Þorleifi þegar hann var kominn einn í átt að körfu Hauka en dómarinn dæmdi fyrst bara venjulega villu. Það var svo sem enginn að kippa sér upp við það enda var þetta afar smávægilegt en reglurnar segja víst að þetta sé U og ekkert við því að segja.
Emil fékk svo aftur U-villu sem nokkuð auðvelt var að réttlæta og við það þurfti hann að yfirgefa völlin reglum samkvæmt.“
En mega nýliðar ekki bara vera þolanlega sáttir með að taka svona á ríkjandi meisturum?
„Það var enginn ógleði í klefanum eftir leik en eðlilega voru menn drullu fúlir. Það var lagt upp með ákveðna hluti fyrir leikinn og þeir gengu upp á löngum köflum. Við vissum alveg að Grindvíkingar yrðu erfiðir og ætluðu að láta svekkelsi síðasta leiks hjá þeim bitna á okkur en að sama skapi vildum við sýna að liðið eigi svo fyllilega heima í efstu deild. Jú ég get því alveg sagt að við erum fyllilega sáttir með að taka svona hraustlega á móti Íslandsmeisturunum og gefa áhorfendum og fjölmiðlum eitthvað til að kjammsa á.“



