Íslandsmeistarar Grindavíkur eru ekki að slá taktinn þessi dægrin í málefnum erlendra leikmanna því nú hafa meistararnir sagt upp öðrum bandarískum leikmann þessa vertíðina. Kendall Timmons er á heimleið og skyldi engan undra enda kappinn bekkjarvermir í spennuslagnum gegn Haukum í síðustu umferð. Timmons var þó betri en enginn og átti sinn þátt í sigri Grindavíkur með mikilvægum körfum á endasprettinum.
Á heimasíðu Grindavíkur kemur fram að Timmons hafi ekki staðist væntingar Grindvíkinga og verði því aftur boðið upp í dans eins og gulir komast að orði. Leit stendur yfir að nýjum manni en spor Aaron Broussard og J´Nathan Bullock eru enn fersk á fjölum Rastarinnar og ljóst að meistararnir ætla ekki að fella sig við hvaða leikmann sem er.
Timmons lék tvo leiki með Grindavík með 14,5 stig og 9,0 fráköst að meðaltali í leik.
Mynd/ Axel Finnur



