Nú eru átta dagar þangað til keppni í NBA deildinni hefst og þá er ekki úr vegi að fara aðeins yfir stöðu mála. Það er Hannes Birgir Hjálmarsson sem spáir í spilin og við hefjum leik í Austurdeildinni í Atlantshafsriðlinum:
AUSTURDEILD
“The Battle of New York” verður saga Atlantshafsriðilsins í vetur þar sem stjörnum prýdd lið Knicks og Nets berjast um fyrsta sætið riðilsins en ég treysti mér ómögulega til að segja hvernig sú barátta endar! Hallast þó frekar á að að NY byrji tímabilið betur og það muni skipta sköpum í lok tímabilsins.
1-2. New York Knickerbockers
Knicks eru með einn besta sóknarmann deildarinnar á sínum snærum – Carmelo Anthony – sem getur fleytt þeim vel áfram í fyrsta sæti riðilsins. J. R. Smith getur dottið í skotgírinn hvenær sem er og Andrea Bargnani sem kom frá Toronto í sumar er einnig skemmtilegur sóknarmaður. Raymond Felton tekur nú alfarið við sem aðal leikstjórnandi liðsins sem mun eflaust sakna Jason Kidd sem hefur tekið við þjálfiun Brooklyn Nets! Tyson Chandler er sterkur varnarmaður en vörnin verður veiki hlekkur liðsins í vetur líkt og í fyrra. Liðið verður að treysta á að skora fleiri stig en andstæðingurinn til að vinna leiki og hefur alla burði og leikmenn sem á þarf að halda til að vinna í kringum 55 leiki.
1-2. Brooklyn Nets
Nets er lið sem verður vert að horfa á í vetur eftir að liðið náði í Paul Pierce, Kevin Garnett og Jason Terry frá Boston og Andrei Kirilenko í sumar auk þess að ráða Jason Kidd sem þjálfara. Deron Williams leikstjórnandi liðsins mun eflaust verða sá sem nýtur mest góðs af Kidd í þjálfarastöðunni en það er spurning hvort liðið og nýr þjálfari þurfi ekki smá tíma til að “smella saman” í upphafi leiktíðar. Ef allir (öldnu) leikmennirnir í liðinu halda heilsu yfir veturinn og í úrslitakeppninni gæti liðið þess vegna farið alla leið í úrslit Austurdeild í það minnsta jafnvel í úrslit NBA. Vörnin verður aðalsmerki liðsins þar sem Kevin Garnett rekur menn áfram ef þeir eru eitthvað að slóra sem kemur liðinu í í kringum 55 sigra.
3. Toronto Raptors
Raptors liðið hefur lítið breyst frá því í fyrra eini leikmaðurinn sem fór frá félaginu er Andrea Bargnani sem fór til Knicks. “Psycho T” Tyler Hansborough kom til liðsins frá Indiana og hann herðir liðið saman með gífurlegri baráttu og eljusemi. Rudy Gay er sterkasti leikmaður liðsins og er að spila á síðasta ári samnings sem og leikstjórnandinn Kyle Lowry. Liðið þarf að byrja vel annars má búast við talsverðum breytingum á liðinu fyrir lok leikmannaskiptigluggans í febrúar. Ég reikna með að liðið nái því og endi í úrslitakeppninni í fyrsta sinn frá árinu 2008 eftir í kringum 45 sigra.
4. -5. Philadelphia 76ers
76ers eru líkt og Boston Celtics að fara í gegnum enduruppbyggingartímabil sem verður erfitt. Liðið réði Brett Brown fyrrum aðstoðarþjálfara San Antonio til sín og valdi Nearlens Noel (sem er í endurhæfing vegna meiðsla í krossböndum í hné) í nýliðavalinu. Liðið lét frá sér Jrue Holiday aðal leikstjórnanda liðsins og valdi Micheal Carter-Williams í hans stað. Líkt og hjá Boston yrði árangurinn líklega bestur hjá Philadelphia ef liðið fær fyrsta valrétt í nýliðavalinu næsta sumar! Liðið mun að líkindum eiga erfitt með að skora mikið í vetur en þó nog til að ná um 25 sigurleikjum.
4.-5. Boston Celtics
Celtics liðið er nánast óþekkjanlegt frá því í fyrra Gerald Wallace, Kris Humphrey, Keith Bogans og Marshon Brooks komu í skiptunum við Brooklyn Nets og Rajon Rondo einn besti leikstjórnandi NBA deildarinnar er að jafna sig á krossbandameiðslum í hné. Já árið verður langt og erfitt fyrir okkur fjölmörgu aðdáendur Celtics en ef eitthvað er að marka leiki liðins á æfingatímabilinu, þá ætti amk að vera gaman að fylgjast með nýliðunum Kelly Olynyk og Phil Pressey. Nýr þjálfari liðsins Brad Stevens á erfitt verk fyrir höndum en hefur þó eitthvað í höndunum með Jeff Green (sem verður að stíga upp í vetur) og Rajon Rondo þegar hann kemur úr endurhæfingu. Ef af líkum lætur verða sigrarnir í færri kantinum og ég spái því að liðið nái ekki í úrslitakeppnina og endi með í kringum 25 sigra.



