spot_img
HomeFréttirVika þangað til NBA hefst

Vika þangað til NBA hefst

Nú er akkúrat vika þangað til keppni í NBA deildinni hefst og þá er ekki úr vegi að fara aðeins yfir stöðu mála. Það er Hannes Birgir Hjálmarsson sem spáir í spilin og við höldum áfram í Austurdeildinni en Hannes fór þá yfir málin í Atlantshafsriðlinum og nú er röðin komin að miðriðlinum þar sem gefur m.a. að líta sterka Pacers.
 
Miðriðill
Líkt og í Atlantshafsriðlinum reikna ég með að tvö lið berjist um efsta sætið í riðlinum, Pacers og Bulls. Indiana býr vel að reynslunni úr úrslitakeppninni í fyrra þar sem þeir veittu Miami Heat svakalega keppni og Danny Granger er kominn úr meiðslum. Chicago er búið að endurheimta Derrick Rose einn allra besta leikmann deildarinnar úr krossbandameiðslum og ættu liðin að vera í sérflokki í riðlinum.
1. Indiana Pacers
Pacers gátu varla veitt Miami meiri keppni en í sjö leikja úrslitaseríu Austurdeildarinnar en liðið hefur bætt sig síðan þá, Granger er kominn aftur úr meiðslum og liðið hefur bætt við sig mönnum eins og Luis Scola, C. J. Watson og Chris Copeland, Liðið gæti orðið besta varnarlið deildarinnar með risann Roy Hibbert, Paul George og Lance Stephenson innanborðs. Breiddin í liðinu er svakaleg og það verður hún sem gerir útslagið varðandi fyrsta sæti riðilsins og liðið verður nálægt 60 sigrum í vetur.
2. Chicago Bulls
Chicago liðið hefur endurheimt einn besta leikmann deildarinnar í Derrick Rose sem heldur því fram að sprengikraftur hans sé enn meiri en hann var fyrir meiðslin sem eru búin að halda honum frá keppni í rúmt ár! Liðið fékk til liðs við sig Mike Dunleavy í sumar og er hann góð viðbót við liðið sem hefur sterka menn innanborðs eins og Joakim Noah, Carlos Boozer og Luol Deng. Liðið verður ekki árennilegt fyrir mótherja í vetur og verður gaman að fylgjast með liðinu en búast má við virkilega sterkum varnarleik frá liðinu enda þjalfarinn Tom Thibodeau galdramaður þegar kemur að varnarvinnu! Liðið nær tæpum 60 sigrum og verður rétt fyrir neðan Indiana fyrir vikið.
3. Detroit Pistons
Detroit styrkti sig verulega með því að ná í Josh Smith og Brandon Jennings í sumar sem munu hjálpa ungu leikmönnunum Andre Drummind og Greg Munroe að læra á NBA deildina. Chauncey Billups er kominn aftur og liðið er með sterka leikmenn eins og Rodney Stuckey og Will Bynum að auki. Má segja að liðið sé komið með “Turnana þrjá” í Smith, Monroe og Drummond en hvort þeir ná að hala inn nógu mörgum sigrum til að ná í úrslitakeppnina er óljóst og ég spái þeim rétt yfir pari með um 44 sigra og að það dugi þeim í úrlsitakeppnina.
4. Milwaukee Bucks
Bucks misstu Brandon Jennings til Detroit en héldu Brandan Knight og hafa skemmtilegan leikmannahóp en verða eflaust eitt af liðinum sem eru að sækjast eftir vali ofarlega í nýliðavaliinu. O. J. Mayo kom frá Dallas og liðið fékk mikið efni í Giannis Antetokounmpo (sem vonandi fær eitthvað þjálla viðurnefni) auk þess sem Caron Butler, John Henson og Luke Ridnour eru allt leikmenn sem er gaman að horfa á. Sigrarnir verða þó af skornum skammti og liðið nær ekki í úrslitekeppnina með 50% sigurhlutfall í 41 sigri.
5. Cleveland Cavaliers
Cleveland valdi Anthony Bennett í nýliðavalinu sem af mörgum var talinn sá leikmaður sem gæti haft áhrif strax í NBA deildinni og nái hann að blómstra ásamt Kylie Erving gæti orðið gaman að horfa á Cleveland liðið með þá tvo og Tyler Zeller sem kom á óvart í fyrra og Anderson Varejao innanborðs. Cleveland tók talsverða áhættu með að ná í Andrew Bynum frá Philadelphia en ekki er víst hvort þessi fyrrum “tilvonandi stórstjarna” nái sér á strik eftir meiðsli og jafmvel óvíst að hann spili nokkuð sem heitið getur. Liðið er eitt þeirra liða sem verða í baráttu um valréttarsæti í nýliðavalinu næsta vor og ná um 35 sigrum.
 
Tengt efni:
 
Mynd/ Hannes spáir Roy Hibbert og félögum sigri í miðriðli Austurstrandarinnar.
Fréttir
- Auglýsing -