spot_img
HomeFréttirSex dagar í fyrsta leik NBA

Sex dagar í fyrsta leik NBA

Hannes Birgir Hjálmarsson heldur áfram með NBA spánna fyrir tímabilið 2013-2014 og í dag fáum við að sjá hvaða lið hann ætlar að setja inn í úrslitakeppnina af Austurströndinni á komandi tímabili. Þegar höfum við tekið fyrir Atlantshafsriðilinn og miðriðilinn en nú er komið að suðausturriðlinum:
 
Suðausturriðill
 
Ætli það þurfi nokkið að spila í þessum riðli? Miami Heat verður langbesta liðið í riðlinum og jafnvel hugsanlega eina liðið sem nær í úrslitakeppnia úr riðlinum! Spái því þó að Atlanta rétt sleppi inn í úrslitakeppnina þótt þeir spili eflaust ekki margar umferðir þar!
 
1. Miami Heat
Núverandi meistarar fara með nánast sama lið í keppnina og vann titilinn í fyrra, bættu þó við sig Greg Oden sem átti að verða einn besti miðherji deildarinnar en hefur verið í meiðslum allan sinn feril, hann fær þó nógan tíma til að komast að því hvort hann getur spilað af einhverju viti í þessu frábæra liði Miami. Í bílstjórasætinu er að sjálfsögðu besti leikmaður deildarinnar siðastliðin ár, LeBron James, sem hefur sér við hlið Dwyane Wade og Chris Bosh ásamt stórskyttunni Ray Allen (sem n.b. hitti þriggja stiga skotinu sem vann meistaratitilinn fyrir Miami sl. vor). Vanmetinn þjálfari liðsins Eric Spoelstra hefur ekki fengið nógu mikla viðurkenningu fyrir sitt framlag til Miami titlanna tveggja síðastliðin tímabil en það þarf kjark og bein í nefinu til að stjórna stórstjörnum eins og eru í Miami liðinu. Liðið mun “renna” nokkuð auðveldlega í efsta sæti Austurdeildarinnar með 65 sigra á tímabilinu.
 
2. Atlanta Hawks
Það verður erfitt fyrir Hawks að fylla skarð Josh Smith en í staðinn fékk liðið Paul Milsapp sem er þrátt fyrir að vera ekki jafn stekur leikmaður og Smith skemmtilegur leikmaður. Ef Atlanta ætlar sér einhverja hluti í vetur verða menn eins og Al Horford, Lou Williams, Kyle Korver og Jeff Teague að stíga upp eigi liðið að komast í úrslitakeppnina næsta vor. Ég spái að Atlanta rétt merji að komast í úrslitakeppnina með 41 sigur.
3. Washington Wizards
John Wall mun leiða Washington eins langt og það kemst, sem verður ekki langt í vetur. Liðið er skipað leikmönnum sem gætu komið á óvart sem lið en ég held að það gerist ekki í ár. Allt of mikið mun mæða á Wall sem spilaði rúmlega hálfan seinni hluta síðasta tímabils og liðið lék mun betur eftir að hann kom úr hnémeiðslum (ótrúlega mikið af skemmtilegum leikmönnum sem hafa átt við alvarleg hnémeiðsli að stríða undanfarin ár!). Bradley Beal leikur við hlið Wall í bakvarðarstöðunni og liðið valdi annan leikstjórnanda Otto Porter frá Þýskalandi í nýliðavalinu. Emeka Okafor og Trevor Arisa eru þekktustu nöfnin í liðinu sem ég spái að nái ekki sæti í úrslitakeppninni með um 35 sigurleiki.
4. Charlotte Bobcats
Bobcats í eigu Micheal Jordan eru ekki enn farnir að spila eins og meistarinn gerði í hverjum leik þ. e. á fullu gasi og liðið sem er skipað skemmtilegum leikmönnum eins og Kemba Walker, nýliðanum Cody Zeller (margir spá að hann veðri valinn nýliði ársins) og Al Jefferson sem kom frá Utah í sumar en vörnin verður Akkilesarhæll liðsins. Liðið hefur á að skipa ungum leikmönnum sem þurfa sinn tíma auk Walker og Zeller eru leikmennirnir Gerald Henderson, Micheal Kidd-Gilchrist og Bismack Biyombo leikmenn sem ættu að spjara sig í deildinni en það gerist ekki í ár og á síðasta ári liðsins sem Bobcats (breytist í Hornets eftir þetta tímabil) vinnur varla fleiri en 30 leiki.
5. Orlando Magic
Orlando valdi Victor Oladipo nr. 2 í nýliðavalinu (talinn eiga möguleika á að verða valinn nýliði ársins) en annars er liðið nánast óbreytt með Jameer Nelson sem leikstjórnanda og Glenn “Big Baby” Davis ásamt Arron Affialo sem helstu menn. Ungu mennirnir Nikola Vucevic og Tobias Harris eiga framtíðina fyrir sér ásamt Oladipo en þeirra tími er ekki kominn. Orlando verður enn eitt liðið sem sækist eftir að ná hátt á valréttarlista nýliðavalsins næsta sumar og vinnur 25 leiki á tímabilinu.
 
 
Liðin sem komast í úrslitakeppnina úr Austurdeild skv. spánni:
New York Knicks
Brooklyn Nets
Indiana Pacers
Chicago Bull
Miami Heat
Atlanta Hawks
Detroit Pistons
Toronto Raptors
 
Tengt efni: 
 
Fréttir
- Auglýsing -