spot_img
HomeFréttirKR búið að fá á sig 226 stig í tveimur leikjum í...

KR búið að fá á sig 226 stig í tveimur leikjum í Hólminum

Fjórir leikir eru á dagskránni í Domino´s deild karla í kvöld. Vörn KR míglekur í Stykkishólmi ef söguna er eitthvað að marka, röndóttir hafa í síðustu tveimur deildarleikjum „uppfrá“ fengið á sig 226 stig! Stjarnan hefur sýnt okkur dökku hliðina fyrstu tvær umferðirnar og þar getur bara rofað til, tölfræðin styður ekki för Valsmanna í Röstina og naglbítur gæti verið í vændum í Hertz-hellinum. Ekki láta ykkur vanta á völlinn í kvöld!
 
 
Grindavík-Valur
Síðasti deildarleikur Valsmanna í Röstinni fór ekki hátt, Hlíðarendapiltar lágu þá með 38 stiga mun 119-81 en það var í febrúar 2012 og þar áður léku Valsmenn síðast í deildinni úti í Grindavík árið 2003. Við þurfum að ferðast aftur alla leið til ársins 1993 til að finna sigur hjá Val úti í Grindavík en sá leikur fór 79-83 fyrir Valsmenn en frá árinu 1988 hafa Valsmenn unnið alls þrjá deildarleiki í Röstinni svo tölfræðin verður þeim ekki hliðholl í kvöld á heimavelli meistaranna.
 
ÍR-Haukar
Haukar mættu síðast í Hertz-hellinn þann 15. mars 2012 og gengu þá á braut með tvö stig eftir 87-92 sigur. Búast má við hörkuleik í kvöld en Haukar hafa 16 sinnum unnið deildarleiki á heimavelli ÍR en liðin mættust fyrst í gamla Seljaskóla árið 1984 og þá höfðu Haukar 62-68 sigur í leiknum. Liðin eru í sömu sporum í dag, hafa bæði unnið einn leik og tapað einum, ÍR að koma undan rassskellingu í DHL Höllinni og Haukar úr svaðalegasta leik tímabilsins til þessa þegar Hafnfirðingar töpuðu tvíframlengdum leik gegn Grindavík. Hertz-hellirinn er úrvalskostur í kvöld.
 
Snæfell-KR
KR hefur ekki unnið deildarleik í Hólminum síðustu þrjú tímabil og síðustu tvo deildarleiki sem KR hefur leikið í Hólminum hafa þeir fengið samtals á sig 226 stig! Vesturbæingar hafa þó verið sannfærandi í fyrstu tveimur leikjum sínum á meðan Hólmarar rétt sluppu með sigur í Borgarnesi en töpuðu í fyrsta leik gegn Þór Þorlákshöfn á heimavelli. Snæfell er þó að innleiða nýjan leikmann að nafni Vance Cooksey sem gerði 30 stig gegn Skallagrím í sokkum úr Fríhöfninni, nýlentur karlinn.
 
Stjarnan-Skallagrímur
Fyrsti og eini deildarsigur Skallagríms í Garðabæ kom árið 2002 þegar Borgnesingar lögðu Stjörnuna 65-76 en síðan þá hafa Skallagrímsmenn farið fýluferð í Ásgarð árið 2007, 2008 og 2013. Skallagrímur hefur leikið einum leik meira þetta tímabilið og ólíkt Stjörnunni sem eru stigalausir á botninum hafa Borgnesingar þegar fundið sín fyrstu stig. Garðbæingar hafa sýnt okkur til þessa allar sínar verstu hliðar svo stuðningsmenn þeirra geta fagnað leik kvöldsins því leiðin getur bara legið upp á við.
 
Allir leikir kvöldsins hefjast kl. 19:15

Mynd/ Mætir Finnur þjálfari KR með vörnina í kvöld?
  
Fréttir
- Auglýsing -