Fyrr í dag greindi Karfan.is frá því að Shawn Atupem myndi ekki leika með KR í kvöld og hefði fengið sig lausan undan samningi sínum við félagið. Nú í kvöld sendi stjórn KKD KR frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„Stjórn körfuknattleiksdeildar KR vill staðfesta það sem fram hefur komið á netmiðlum í kvöld, að Bandaríkjamaðurinn Shawn Atupem mun ekki leika meira með liðinu í vetur. Hafa KR og leikmaðurinn komist að samkomulagi um starfslok hans og heldur hann til Finnlands fyrramálið þar sem hann mun spila í vetur.
KR vill þakka Shawn fyrir hans framlag í þessum tveimur leikjum sem hann lék með liðinu, þess utan var um viðkunnarlegan pilt að ræða og óskum við honum alls hins besta í framtíðinni“



