Leikur Grindvíkinga og Valsmanna í Domino´s deild karla mun seint fara á spjöld sögunnar fyrir skemmtilegheit og þeir áhorfendur sem lögðu leið sína í Röstina voru þeirri stund fegnastir þegar lokaflautan gall. Grindvíkingar unnu tiltölulega áreynslulausan sigur, 78-70. Valsmenn hefðu með beittari leik getað komið sér í færi á að koma sér inn í leikinn í lokin en gæðin einfaldlega skorti og því náðu lokamínúturnar í raun ekki að verða neitt spennandi.
Kannski áttu sumir von á jöfnum leik þar sem Grindvíkingar léku án erlends leikmanns auk þess sem Ómar Örn Sævarsson hafði gripið ælupestina sem hefur kíkt við í Grindavík að undanförnu. En ekkert útlit var fyrir jafnan leik og virtust Grindvíkingar ætla kafsigla Valsmenn því eftir fyrsta fjórðung munaði strax 13 stigum, 31-18. Grindvíkingar sem virkuðu áhugalitlir strax í upphitun slökuðu þá á klónni og það var eins og við manninn mælt, Valsmenn gengu strax á lagið og voru búnir að minnka muninn talsvert en Grindvíkingar gáfu í í lok hálfleiksins og 10 stigum munaði í hálfleik, 52-42.
Seinni hálfleikur var nánast spegilmynd þess fyrri, þegar Grindvíkingar gáfu allt í leikinn þá völtuðu þeir yfir Valsmenn en um leið og kæruleysi greip um sig gengu Valsmenn á lagið og með meiri gæðum hefðu þeir getað komið sér inn í leikinn í lokin eins og áður sagði en tiltölulega auðveldur Grindavíkursigur staðreynd.
Í pistli mínum eftir KR-leikinn hélt ég uppi vörnum fyrir Kana Grindvíkinga og vildi meina að hann ætti að geta sprungið út eins og svo margir Kanar hafa gert en í öðrum leiknum á móti Haukum þurfti ég strax að byrja narta í hattinn fræga og þurfti svo að gæða mér á honum um helgina. Hver veit, kannski á Timmons eftir að springa út einhvers staðar annars staðar en það var deginum ljósara að hann hentaði engan veginn Grindvíkingum sem þurfa eftir undanfarin ár þar sem allt gekk upp í Kana-lotteríinu, að tefla fram öflugum slíkum leikmanni í ár ef þeir ætla sér að eiga möguleika á að „three-peat“
Um Valsmenn er fátt hægt að segja. Ég trúi ekki öðru en margir Valsarar hugsi með sér að skemmtilegra hafi verið að vera nokkuð stór fiskur í litlu 1.deildar-tjörninni í fyrra í stað þess að vera sandsíli í Úrvalsdeildar-úthafinu á þessari leiktíð! Það kæmi mér mikið á óvart ef Valsmenn ná sigri í vetur og leið þeirra er sem fyrr, rakleitt beint niður aftur. Vissulega eru leikmenn Valsmann ungir að árum en einhver hefði haldið að þeir myndu þá reyna tefla fram virkilega öflugum Bandaríkjamanni en svo er ekki. Þetta gæti því reynst ansi langur vetur hjá Valsmönnum.
Bestu menn Grindvíkinga voru Jóhann Árni Ólafsson sem fann aftur skor-„touch-ið“ sitt en hann setti 28 stig og tók auk þess 11 fráköst. Sigurður Þorsteinsson var sem kóngur í ríki sínu og hefði eflaust getað gert mun fleiri stig en þau 20 sem hann gerði. Auk stiganna tók Siggi 8 fráköst. Enginn annar komst yfir hinn fræga 10-stiga vegg.
Tölur Chris Woods líta svo sem flott út fljótt á litið en hann skoraði 27 stig og tók heil 21 fráköst í leiknum en hann skaut ansi mikið og tapaði auk þess 6 boltum. Ágætis leikmaður en engan veginn nógu öflugur til að halda Valsmönnum samkeppnishæfum.
Umfjöllun/ SDD
Mynd úr safni/ [email protected] – Jóhann Árni Ólafsson var stigahæstur Grindvíkinga í kvöld.



