”Derby dagar í Reykjanesbæ” voru settir í kvöld en bæði karla- og kvennalið Njarðvíkur og Keflavíkur leiða nú saman hesta sína í Ljónagryfjunni með sólarhrings millibili.Það voru kvennaliðin sem riðu á vaðið en fyrir leik kvöldsins voru það Keflavíkurmeyjar sem trónuðu ósigraðar á toppi Dominos deildarinnar, þvert á spár spekinga eins og frægt er orðið. Njarðvíkurstúlkur höfðu aftur á móti spilað á pari vallarins til þessa og sátu í 4. sæti deildarinnar með 2 sigra og 2 töp í farteskinu.
Njarðvíkingar hafa lengi verið þekktir fyrir snyrtilega umgjörð og var boðið uppá nokkuð huggulega en hljóðlausa leikmannakynningu þar sem yngri iðkendur félagsins tóku virkan þátt í fjörinu. Undirritaður saknaði þó tónlistar í leikhléum og á milli leikhluta og óskar hér með eftir því fyrir næsta leik í Ljónagryfjunni. Fjölmargir áhorfendur lögðu leið sína á völlinn í kvöld og sáu um að ekki heyrðist í saumnál detta og hvöttu sín lið með ágætum, þó sér í lagi heimamenn sem ekki voru nískir á raddböndin.
Njarðvíkurkonur komu gríðarlega grimmar til leiks og höfðu sett niður 9 fyrstu stigin innan 2ja mínútna áður en Andy Johnston gerðir tvöfalda breytingu á liði sínu sem virkaði taugaveiklað og óskipulagt. Keflvíkingar áttu í miklu basli með að hemja Jasmine Beverly sem tók hvert sóknarfrástið á eftir öðru og sá til þess að hvítklæddir Njarðvíkingar fengu aukaskottilraun í nánast hverri sókn fyrstu 5 mínútur leiksins. Samhent átak og þolinmæði í sóknaraðgerum fleytti Njarðvíkurstúlkum í 15 – 8 forskot áður en gestirnir skiptu yfir í 2-3 svæðisvörn sem sló Njarðvíkinga eilítið útaf laginu. Loks höfðu Keflvíkingar jafnað leikinn í 17-17 áður en leikhlutinn var allur.
Hjá Keflavík sá Porsche Landry nánast alfarið um stigaskorun og hafði gert 13 stig Jasmine Beverly 9 fyrir Njarðvík.
Annar leikhluti fór hægt af stað en Njarðvíkingar áttu í tómum vandræðum með að gíra niður Porsche-inn sem hafði nánast ein síns liðs komið Keflvíkingum 4 stigum yfir, 21-25, þegar rúmar 6 mínútur lifðu af fyrri hálfleik. Sara Rún Hinriksdóttir og Sandra Þrastardóttir voru baráttuglaðar og sáu um nauðsynlega ruslamennsku fyrir Keflvíkinga. Salbjörg Sævarsdóttir var dugleg í frákastabaráttunni og dreifði boltanum vel úr teignum fyrir heimastúlkur sem höfðu þó ekki erindi sem erfiði úr flestum sóknartilraun sínum. Innkoma hinnar kornungu Thelmu Dísar Ágústsdóttur kveikti neista í Keflavíkurliðinu og lét hún strax til sín taka á báðum endum vallarins og kveikti í stuðningsmönnum Keflavíkurliðsins. Staðan orðin 26-37 á nokkrum augnablikum og var ekki meira skorað áður en að liðin gengu til búningsherbergja.
Hjá UMFN var Jasmine Beverly stigahæst með 15 stig og 7 fráköst og Andrea Björt Ólafsdóttir kom henni næst með 5 stig og 2 stolna bolta. Athyglisverð skotnýting Njarðvíkurstúlkna úr 3ja stiga skotum vakti sennilega littla hrifningu þjálfarateymisins en höfðu þær aðeins nýtt 1 af 14 tilraunum sínum.
Hjá Keflavík hafði títt nefnd Porsche Landry gert 19 stig og Sara Rún 10.
Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði, lítið skorað og Njarðvíkurstúlkur hálfhræddar að sækja inn í svæðisvörn Keflvíkinga. Svava Stefánsdóttir ræsti út stuðningsveit Njarðvíkinga með 3ja stiga körfu en það tók rúmar 4 mínútur fyrir Njarðvíkinga að finna körfuna á meðan Keflvíkingar sóttu hart inn í teig heimastúlkna með Landry og Bryndísi Guðmundsdóttur í fararbroddi. Landry sprengdi upp vörn heimamanna hvað eftir annað og mataði félaga sína ef hún kláraði ekki sjálf. Munurinn orðinn 15 stig, 33-48 þegar 4 mínútur voru eftir af 3. leikhluta. Njarðvíkingar vildu svo fá meira en ekki neitt þegar Landry virtist ræna Jasmine Beverly galopnu færi með glæfralegum hætti en annars ágætir dómarar þessa leiks sáu ekki ástæðu til að dæma villu í það skiptið en fengu Njarðvíkingar innkast við littla hrifningu stuðningsmanna sem bauluðu á Porsche Landry í dágóða stund í kjölfarið.
Meiri harka færðist í leikinn uppúr þessu og fóru heimastúlkur að láta finna vel fyrir sér á báðum endum vallarins sem virtist ætla að opna þeim dyr inn í leikinn á ný. Fjölmörg glötuð dauðafæri undir körfunni urðu þeim þó erfiður biti að kyngja og í stað þess að minnka muninn niður í 4-6 stig voru það Keflvíkingar sem héldu fengum hlut og staðan eftir 3. leikhluta 41-56 og ljóst að róðurinn yrði heimakonum erfiður.
Það var því að duga eða drepast fyrir Njarðvíkinga sem í snarræði minnkuðu muninn í 9 stig, 49-58 þegar 7 mínútur lifðu leiks með gegnumbroti, körfu og vítaskoti að auki í boði Jasmine Beverly. Það var þó of lítið og of seint þar sem Sara Rún svaraði með yfirvegðuðum þristi og 2 stigum úr stökkskoti í kjölfarið eftir leikhlé frá Andy. Njarðvíkingar spiluðu nokkuð þétta, en engu að síður furðu stemmningslausa svæðisvörn sem stöðvaði ekki Bríeti Sif Hinriksdóttur í því að fara langleiðina með að klára leikinn með 3ja stig körfu og breyta stöðunni í 53-68. Næstu mínútum var dreift á Keflavíkurbekkinn og fengu ungar stúlkur að spreyta sig það sem eftir lifði leiks. Þeirra á meðal Elfa nokkur Falsdóttir Harðarsonar, sem spilaði sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk og voru tvö systrapör á vellinum í Keflavíkurbúning í lok leiksins, þær Hinriksdætur og Falsdætur.
Njarðvíkingar pressuðu hvað þær gátu en náðu aldrei að ógna forskoti Keflvíkinga sem lönduðu 64-73 sigri en Njarðvíkingar mega þó alveg við því að naga sig í handabökin eftir þennan leik þar sem þær voru sjálfum sér verstar og með smá heppni getað veitt Keflvíkingum harðari keppni um stigin 2 sem í boði voru.
Hjá Njarðvíkingum var Jasmine Beverly með tröllatvennu, 29 stig og 18 fráköst, ásamt því að gefa 4 stoðsendingar. Salbjörg Sævarssdóttir skilaði 7 stigum og 10 fráköstum en aðrir leikmenn skoruðu minna.
Fyrir Keflvíkinga var Porsche Landry allt í öllu. Þessi snaggaralegi bakvörður átti vægast sagt mjög góðan leik og var enginn í liði Njarðvíkur nálægt því að vera vaxin í það hlutverk að gæta hennar. Lauk hún leik með 34 stig og 6 fráköst. Sara Rún og Bríet Hinriksdætur skiluðu góðri vinnu og skoruðu 15 og 10 stig. Voru þær systur drjúgar fyrir Keflavíkurliðið seinni part leiks og tóku við keflinu af Landry þegar þreytan var farin að segja til sín.
Keflvíkurkonur eru þar með enn ósigraðar á Íslandsmótiniu á meðan að Njarðvíkingar detta niður fyrir 50% vinningshlutfall og deila nú 4.-5. sæti með Hamri úr Hveragerði.
Keflavík leiðir nú 1-0 á “derby dögum í Reykjanesbæ” og má reikna með frábærri stemmningu annað kvöld þegar karlaliðin leiða saman hesta sína fyrir vonandi troðfullu húsi í Njarðvik.
Texti: Sigurður Friðrik Gunnarsson



