Bandarískir háskólar teygja anga sína víða og nú er svo komið að Njarðvíkingurinn Elvar Már Friðriksson og fyrrum Fjölnismaðurinn og núverandi Keflvíkingurinn Gunnar Ólafsson eru í dag á leið til Bandaríkjanna í heimsókn til St. Francis háskólans í New York.
Elvar og Gunnar fóru í dag áleiðis til Bandaríkjanna í heimsókn í boði skólans en St. Francis leikur í 1. deild NCAA háskólaboltans. Þess má geta að Andy Johnston, núverandi þjálfari Keflavíkur, er fyrrum aðstoðarþjálfari við St. Francis svo það þarf enga eldflaugasérfræðinga til þess að tengja punktana í spurningunni hver sé kveikjan að ferð þeirra Elvars og Gunnars.
Bæði Elvar og Gunnar hyggja báðir á nám í Bandaríkjunum að loknu yfirstandandi tímabili á Íslandi.
Körfuboltastórveldin Njarðvík og Keflavík munu því að öllum líkindum verða án þessara öflugu leikmanna næstu fjögur árin að minnsta kosti.



