Valsstúlkur gerðu sér góða ferð suður með sjó í dag þegar þær sóttu tvö stig í heimsókn sinni til Njarðvíkurkvenna. Leikurinn jafn allt fram að hálfleik en Njarðvík leiddi með þremur stigum að hálfum leik loknum. Valsstúlkur voru svo töluvert sterkari í seinni hálfleik og kláruðu leikinn verðskuldað.
Valsstúlkur sem hingað til hafa ollið einhverjum vonbrigðum virtust ætla að halda áfram á þeirri braut og hugsanlegt vanmat þeirra í bland við baráttu hjá Njarðvíkurkonum varð þess valdandi að Njarðvíkurstúlkur voru framan af leik með forystu í leiknum og Valskonur virtust vera hálf daufar til leiks. Í öðrum leikhluta fóru Njarðvíkurkonur á kostum og settu 28 stig á þær rauðklæddu og sem fyrr segir uppskáru þriggja stiga forystu í hálfleik.
Þessi leikur virtist ætla að halda áfram í seinni hálfleik en þegar um fimm mínútur voru liðnar inn í seinni hálfleik þá gersamlega hrundi leikur Njarðvíkurstúlkna sem fram að þessu hafði verið ágætur. Valskonur gengu á lagið og gersamlega skoruðu körfur að vild. Jaleesa Butler sem hafði haft nokkuð hægt um sig í fyrri hálfleik kom með körfur á færibandi og virtist hafa lítið sem ekkert fyrir því. Algert áhugaleysi var í leik heimasætana í Njarðvík og það kom að því að Nigel Moore þjálfari þeirra fór að skipta byrjunarliðsmönnum sínum út af og þá loksins fóru hlutirnir að gerast. Eða í það minnsta þá versnaði leikur þeirra ekki. En forystan sem Valskonur höfðu komið sér í var þægileg, svo þægileg að þær héldu henni til loka leiks og unnu leikinn verðskuldað 83:92
Njarðvíkurstúlkur geta sjálfum sér um kennt. Þær voru í bullandi stuði í þessum leik fram að þessum tíma þar sem leikur þeirra gersamlega hrundi og þær hófu hreinlega að kasta boltanum í hendurnar á Valsstúlkum og virkuðu hreinlega hræddar. Það var ekki fyrr en að “minni spámenn” þeirra komu inná með kraft undir lokin að leikur liðsins skánaði en þá var það um seinan.
Valsstúlkur voru lengi í gang og það er nú eitthvað sem Ágúst Björgvinsson má svo sem hafa áhyggjur af. Sem fyrr segir var þetta hugsanlegt vanmat en þær fá prik fyrir að taka góða syrpu og klára svo leikinn að lokum nokkuð öruggt. Jaleesa Butler átti fyrir rest skínandi leik og skilaði þrennu í hús með 24 stigum, 11 stoðsendingum og 13 fráköstum. Þrátt fyrir þetta ætlar undirritaður að gerast svo grófur að segja að hún sé eitthvað frá sínu besta. Hún virkaði á tímum áhugalaus, í slöku formi og varnarleikur hennar var ekki uppá marga fiska. Valsliðið gerði vel í þessum leik að klára hann en fyrri hálfleikur er skoðunarvert efni fyrir Ágúst Björgvinsson þjálfara liðsins en því má ekki gleyma að liðinu var spáð þeim stóra í upphafi móts og því væntingarnar í samræmi við það.
Mynd/Texti: [email protected]



