B lið Keflavíkur eru komnir áfram í bikarkeppni Powerade en í dag fóru þeir nokkuð létt í gegnum 2.deildar lið Álftanes.Þegar lokaflautan gall þá var staðan 115: 71 heimamenn í Keflavík í vil og eins og sjá má á þessum tölum var sigurinn nokkuð öruggur. Keflvíkingar gátu leyft sér að hvíla tvær “kanónur” úr sínu liði en þeir Falur Harðarson (meiddur) og Sigurður Ingimundarson hvíldu að þessu sinni.
Leikurinn var tiltölulega jafn eða þangað til um miðbik annars leikhluta þegar Keflvíkingar hófu að stinga af. Sigur Keflavíkur B var aldrei í hættu og fengu allir þar að spila. Stigahæstur að þessu sinni var Gunnar Einarsson sem skoraði 29 stig en tvenna dagsins kom svo sannarlega úr óvæntri átt því það var Sævar Sævarsson, lögfræðingur með meiru sem skoraði 12 stig og bónaði spjaldið með 11 fráköstum. Þessi gamla eimreið þeirra Keflvíkinga kostar svo sannarlega sitt og á bekknum var olíufursti að þessu sinni sem stýrði liðinu og mun koma til með að gera það í bikarkeppninni.
Daði Janusson var atkvæðamestur hjá Álftanesi með 27 stig og 14 frásköst en Jóhann Haukur Líndal skoraði 17 stig.
Eftir tveggja mínútna leik var Albert Óskarsson komin í hendur sjúkraþjálfara liðsins.
Nýr eigandi Keflavíkur B stjórnaði liðinu og með fyrrum markamaskínu þeirra Keflvíkinga Guðmund Steinarsson sér til halds og trausts.



