KR og Stjarnan mætast í Domino´s deild karla í kvöld en þessi lið hafa á síðustu árum náð að leggja grunn að nokkrum erkifjandskap. Stjarnan hefur frá árinu 2001 tvisvar sinnum náð að landa deildarsigri í DHL Höllinni.
Deildarsigrar Stjörnunnar í DHL-Höllinni
30. nóvember 2009: KR 73-78 Stjarnan
7. mars 2013: KR 75-87 Stjarnan
Liðin hafa leikið sjö deildarleiki í DHL-Höllinni, KR unnið fimm en Stjarnan tvo. Síðasti deildarleikur liðanna fór fram fyrr á þessu ári eða öllu heldur seint á síðasta keppnistímabili þar sem Stjarnan fór með 75-87 sigur af hólmi.
Í dag viðrar þannig að KR-ingar verða, rétt eins og síðasta föstudag, ekki með erlendan leikmann í sínum fórum. Stjarnan er aftur á móti að innleiða nýjan mann í Junior Hairston og verður forvitnilegt að fylgjast með kappa og hvort honum takist að liðsinna Stjörnunni við að ná í sinn þriðja deildarsigur í vesturbæ Reykjavíkur.



