Stjarnan heimsótti KR í DHL höllina í kvöld og fyrirfram var vitað að spennandi leikur væri í uppsiglingu.
KR-ingar hófu leikinn af miklum krafti. Varnarleikur Stjörnunnar var hriplekur og heimamönnum var boðið í hlaðborð af opnum skotum. Nýting þeirra var eftir því, 56,5% eFG og 1,32 stig per sókn. Á móti var sóknarnýting Stjörnunnar afar slök.
Leikurinn sveiflaðist yfir til Stjörnunnar í öðrum leikhluta með fínni nýtingu gestanna. KR-ingar voru sterkir í fráköstunum og náðu 6 sóknarfráköstum í fjórðungnum en tókst að nýta fá þeirra tækifæra sem þau buðu upp á.
Annar og þriðji hluti voru eign Stjörnunnar en KR endurheimti stjórnvölina í þeim fjórða. Stjörnumenn hættu að hitta á körfuna en héldu sér lifandi með 10 sóknarfráköstum á móti 7 varnarfráköstum KR eða 59% af þeim fráköstum sem í boði voru á þeim enda. Nýting KR var fullkomin innan þriggja stiga línunnar og þá aðallega í teignum. Aðra sögu var að segja utan hennar eða 2/7.
KR-ingar töpuðu frákastabaráttunni í leiknum, liðin töpuðu jafnmörgum boltum og sóknarnýting þeirra sú sama. Skotnýting KR var ívið betri eða 52,2% eFG á móti 46,7% eFG.
KR-ingar töku fleiri þriggja stiga skot en tveggja eða samtals 38 og nýttu 12 þeirra. 58,1% nýting KR-inga innan þriggja stiga línunnar var mun betri en Stjörnunnar en KR var hins vegar 15/22 í teignum eða 68,2%. Lið með þessa hæð ætti að nýta hana mun betur en þetta í stað þess að henda upp 38 þriggja stiga skotum. Pavel t.a.m. tók 11 þriggja stiga skot en setti niður aðeins 2. Frábær leikur hjá honum með 15 stig, 13 fráköst og 5 stoðsendingar, en skilvirknin var lítil.
Martin Hermannsson var stórkostlegur í þessum leik. 6/7 í fyrsta leikhluta og þar af 3/4 í þristum. 2,09 stig per sókn og 85,7% nýtingu á sóknum. Heldur hægðist á leik Martins í þar á eftir en skilvirknin var engu að síður framúrskarandi. Einu körfurnar hans sem komu frá stoðsendingu voru í fyrsta leikhluta. Restina skapaði hann sjálfur eða aðstoðaði aðra, en stig annara frá stoðsendingum Martins voru samtals 20. Martin var með 6 stoðsendingar í seinni hálfleik og alls 8 í leiknum. Martin endaði leikinn með 1,51 stig per sókn og 81,0% nýtingu á sóknum. Hið heiðgræna skotkort Martins Hermannssonar er hægt að sjá hér að neðan.

Justin Shouse átti fínan leik fyrir Stjörnuna en hitti illa fyrir utan línuna eða 1/6. Shouse var með 9 stoðsendingar ofan á 26 stig. Stoðsendingar hans skiluðu alls 19 stigum.
Athygli vekur hrakandi skotnýting Brynjar Þórs hjá KR í síðustu tveimur leikjum. Hann er 7/25 samtals í skotum í þessum leik og leiknum gegn Snæfelli. Brynjar hitti þó mjög vel í fyrstu tveimur leikjunum sem heldur þó skotnýtingu hans í vetur í 56,5% eFG. Brynjar er samt að nýta illa færin sín í teignum og við körfuna auk þess sem hann hefur tekið sjö skot af hinum alræmda millifæri og nýtt aðeins tvö þeirra.



