Hið árlega Sambíómót Fjölnis var haldið í 16. sinn um nýliðna helgi. Um 500 strákar og stelpur á aldrinum 6-11 ára tóku þátt og komu liðin víðs vegar að af landinu. Mótið heppnaðist í alla staði mjög vel. Leikið var í Dalhúsum og Rimaskóla frá morgni til kvölds laugardag og sunnudag.
Á laugardeginum buðu Sambíóin Egilshöll uppá bíósýningar og um kvöldið var blysför frá Rimaskóla að Dalhúsum á kvöldvökuna. Þar skemmti Sirkus Ísland börnum og fullorðnum, auk þess sem boðið boðið var uppá hefðbundna dagskrárliði eins og troðslusýningu, rúllubolta og þjálfaragrín. Að kvöldvöku lokinni héldu keppendur í Rimaskóla, til að hvílast fyrir átök sunnudagsins.
Leik var haldið áfram á sunnudagsmorgni og var hvert lið síðan leyst út með verðlaunapeningi og liðsmynd frá SportHero, auk hefðbundinnar pizzuveislu.
Í tengslum við mótið voru tilboð hjá ýmsum fyrirtækjum í Grafarvogi, sem margir foreldrar og börn nýttu sér, þegar gafst stund milli stríða. Meðal fyrirtækja sem veittu ríflega afslætti voru Krakkahöllinn Korputorgi, Keiluhöllin Egilshöll, Skautasvellið Egilshöll og Sundlaug Grafarvogs, sem bauð frítt í sund. Að auki voru veitingastaðir í Egilshöll með tilboð, enska boltann og fleira og hægt var að gæða sér á gómsætum Hlölla og eða pulsa sig upp gegn vægu gjaldi á Gullnesti, sem líka er með ódýrasta ísinn í bænum.
Fjölnismenn vilja koma þakklæti á framfæri við alla þátttakendur, foreldra og þjálfara þeirra liða sem heimsóttu Grafarvoginn þessa blíðviðrishelgi.
Matthías Einarsson



