Það var mikil spenna á loka mínútum leiks Njarðvíkur og Hamar í kvöld í Ljónagryfjunni en þar börðust þau lið sem spáð var hvað versta genginu fyrir mótið. Bæði lið hafa hinsvegar látið þessa spá sem vind um eyrum sér þjóta og unnið góða sigra. Í kvöld voru það Hamarsstúlkurnar sem voru sterkari á lokasprettinum og sigur karfan kom þegar um 4 sekúndur voru til loka leiks. 64:65 lokastaða leiksins.
Njarðvík virtist hafa undirtökin í leiknum að mestu, voru yfir allt frá fyrstu mínútu og næstu 39 mínútur leiksins. Gamla góða sagan um feitu konuna og söng hennar verður aldrei of oft sögð. Í hálfleik leiddu heimastúlkur með 9 stigum 34:25. Eins og sjá má á skorinu þá hefðu menn haldið að um gríðarlegan varnarleik væri að ræða en þessu má kannski frekar kenna uppá slaka skotnýtingu liðanna. Saman tóku liðin 50 þriggja stiga skot í leiknum og aðeins 20% þeirra rötuðu rétta leið. Kannski um hugsunarefni fyrir þjálfara liðanna að leita meira inn í teiginn.
Talandi um að leita meira inn í teiginn því þaðan komu úrslitastig kvöldsins. Ef við drepum nú niður í síðustu mínútu leiksins eða þegar Hamarsstúlkur komast yfir í leiknum í fyrsta skipti en mest leiddu Njarðvík með 11 stigum. Í stöðunni 59:58 fá Njarðvík á sig óíþróttamannslega villu. DiAmber setur niður vítin sín og Marín Laufey setur svo niður tvist og með ca 40 sekúndur á klukkunni leiða Hamarsstúlkur með 2 stigum. Svava Ósk Stefánsdóttir sporðrennir svo einum rándýrum þrist í næstu sókn Njarðvíkur og aftur eru heimasæturnar komnar yfir í leiknum með einu stigi. Á einhvern furðulegan hátt þá endar Dagný Lísa Davíðsdóttir svo í galopnu færi hinumegin á vellinum og setur niður tvö stig, Hamar aftur komnar yfir og varnarleikur Njarðvíkur í þessari sókn Hamars afar illa á verðinum. Njarðvíkurstúlkur bruna yfir og þegar um 7 sekúndur eru til loka leiks setur Andrea Ólafsdóttir niður að flestir héldu í húsinu úrslitakörfu leiksins.
Hallgrímur þjálfari Hamar tekur leikhlé og leikkerfið svo sem afar einfalt. Hreinsað fyrir DiAmber Johnson og hún brást ekki listinn, keyrði upp að körfu Njarðvíkur og setti niður tvö stig. Aftur var vörn Njarðvíkur illa skipulögð. Síðustu sóknina átti svo Njarðvík en hún var afar illa útfærð og slakt þriggjastiga skot Svövu rataði ekki niður og Hamar fagnaði sigri.



