Matthías Orri Sigurðarson splæsti í þrennu í kvöld þegar ÍR náði í tvö dýrmæt stig er Valsmenn komu í heimsókn í Hertz-hellinn. Valsmenn með tapinu sitja enn við botninn án stiga en með sigrinum komust ÍR-ingar upp í 6.-8. sæti með 4 stig líkt og Njarðvík og Stjarnan. Hannes Birgir Hjálmarsson var í hellinum í kvöld:
ÍR byrjar leikinn mun betur og kemst í 10-0 eftir rúmar fjórar mínútur áður en Valur nær að skora. Staðan er 13-4 fyrir ÍR eftir fimm mínútur og ekkert að ganga upp hjá Val. Valsliðið nær aðeins að laga stöðuna næstu mínútur og minnka muninn í 17-10 þegar rumar sjö mínútur eru liðnar. Þá gefur ÍR aftur í og komast 22-10 og 25-14 sem er staðan í lok fyrsta fjórðungs.
Liðin skiptast á körfum í upphafi annars leikhluta en Valsmenn eru enn að elta uppi 10 stigin frá upphafi leiksins, ná þó að minnka muninn í 29-24 og 6.41 eftir af leikhlutanum. ÍR-ingar eru ekki eins öryggir í sínum aðgerðum og Valsmenn ganga á lagið og minnka muninn í 3 stig 29-26 þegar rúmar fjórar mínútur eru eftir. Enn er skipst á körfum og ÍR yfir 34-28 þegar fjórar mínútur eru eftir af fyrri halfleik. Hjalti Friðriksson hjá ÍR fær sína þriðju villu þegar þrjár mínútur eru eftir af hálfleiknum og Guðni Valentínusson setur tvö víti í kjölfarið og staðan 36-33 og síðan 36-35. Gunnlaugur Elsuson sem er að spila sinn fyrsta leik með Val setur þrist og kemur Val yfir í fyrsta sinn í leiknum 36-38. Dæmd er óíþróttamannsleg villa á ÍR og eftir tvö vítaskot nær Valsliðið fjögurra stiga forskoti 36-40 þegar tvær mínútur eru eftir. Liðin skiptast á körfum og Valur leiðir 40-44 í hálfleik.
Valsmenn byrja seinni hálfleik af krafti og komast í 43-51 en þá nær ÍR góðri rispu og eftir tvær troðslur er munurinn kominn í tvö stig 51-53 og tæpar fjórar mínútur liðnar af seinni hálfleik. Varnir liðanna eru ekki miklar og liðin skora nánast að vild og ÍR jafnar 55-55 um miðjan þriðja leikhlutann. Barningurinn heldur áfram og þegar tvær mínútur eru eftir er staðan 62-62. Jafnræði er með liðunum lokamínútur þriðja fjórðungs en ÍR skorar síðustu þrjú stigin í þriðja fjórðungi og er með eins stigs forystu 69-68 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Liðin skiptast á að skora í byrjun fjórða leikhluta en ÍR alltaf fyrri til að skora og halda forystunni og auka við hana staðan 81-74 þegar 7 mínútur eru eftir og 84-77 mínútu síðar og Valsmenn taka leikhlé. Valsmenn klúðra næstu sóknum og ÍR gengur á lagið og nær 9 stiga forskoti 86-77 og lokaleikhlutinn hálfnaður. Rúnar Ingi Erlingsson setur þrist þegar þrjár mínútur eru eftir og Birgir Björn skorar eftir sóknarfrákast og minnkar muninn í tvö stig. Valsmenn jafna með þristi þegar tvær mínútur eru eftir en þá er dæmd tæknivilla á bekk Vals þegar sjötti leikmaðurinn hleypur inn á völlinn og Sveinbjörn Claessen setur bæði vítin. Terry Leake Jr. skorar næstu stig og nær fjögurra stiga forskoti sem minnkar í tvö eftir vítaskot Vals, staðan 93-91 þegar mínúta er eftir. Leake Jr. skorar að nýju – staðan 95-91 og 44 sekúndur eftir. Sveinbjörn setur þrist þegar 20 sekúndur eru eftir en tvö þriggja stiga skot Valsmanna geiga og ÍR klárar leikinn og sigrar 99-92 í spennandi leik þar sem sigurinn hefði getað lent hvoru megin sem var en ÍR-ingar héldu haus í lokin og nældu í tvö stig.
Matthias Orri Sigurðarson, Sveinbjörn Claessen og Terry Leake Jr. voru sterkastir hjá ÍR en Matthias var með þrefalda tvennu 22 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingart! Hjá Val steig Rúnar Ingi upp með 23 stig og 9 fráköst og Chris Woods var með 16 stig og 9 fráköst þá var Birgir Björn með 12 stig og 10 fráköst. Gunnlaugur Elsuson er fengur fyrir Valsliðið og átti frábæra innkomu í sínum fyrsta leik með Val á tímabilinu.
Mynd/ VF – Matthías Orri með myndarlega þrennu í kvöld.
Umfjöllun/ Hannes Birgir Hjálmarsson / Hertz Hellirinn 7. nóvember 2013



