Haukar skruppu af Völlunum í garð Ása í kvöld og börðust um tvö stig við heimamenn í Stjörnunni. Fyrirfram mátti búast við hörkuleik, leikur Stjörnunnar á hraðri uppleið og Haukar höfðu glatt margan körfuboltaáhugamanninn með spilamennsku sinni til þessa.
Fyrsti fjórðungur var kannski ekki mikið fyrir augað og liðin hittu frekar illa í byrjun. Það voru þeir Terrence hjá Haukum og meistari Shouse sem helst komu boltanum þangað sem hann á að fara. Staðan hnífjöfn, 17-17 eftir fyrsta fjórðung.
Í öðrum leikhluta var Shouse enn með Stjörnuliðið á herðum sér. Haukaliðið vaknaði hins vegar vel til lífsins í heild sinni og margir að skila góðum stigum á töfluna. Varnarleikur Hauka var einnig árangursríkur og eftir tvo þrista frá Kára Jónssyni voru gestirnir komnir með 10 stiga forystu, 26-36. Marvin Valdimarsson gekk þá fram fyrir skjöldu og hóf að aðstoða Shouse af miklum rausnarskap og gestirnir aðeins þremur stigum yfir, 38-41, í hálfleik.
Þriðji leikhluti var stórskemmtilegur. Allt var í járnum og liðin skiptust á að setja flottar körfur. Marvin hélt uppteknum hætti og Shouse átti ógnarfögur gegnumbrot, gladdi augu áhorfenda m.a. með sínu alþekkta silkimjúka vinstri ,,húkk“skoti. Hjá Haukum sýndi Davíð Páll flotta takta og var hvergi banginn. Staðan 63-64 eftir leikhlutann og spenna framundan.
Snemma í fjórða tróð Hairston boltanum myndarlega í körfu gestanna eftir hraðaupphlaup og kom heimamönnum yfir, 70-68. Þá var eins og stemmningin væri öll þeirra megin og varnarleikurinn mikið betri en fyrr í leiknum. Haukar lendu í miklu hnoði í sókninni og fundu varla opið skot allan fjórðunginn. Þegar rúmar fimm mínútur voru eftir kom Shouse sínum mönnum í 77-70 með ,,and1“ og skömmu síðar setti Dagur Kár stóran þrist er rúmar þrjár mínútur lifðu leiks og munurinn kominn í 10 stig, 83-73. Marvin gerði svo gott sem út um vonir gestanna er rétt um tvær mínútur voru eftir með sínum fimmta þristi, staðan 86-75. Lokatölur 94-79, en fimmtán stiga sigur gefur kannski ekki alveg rétta mynd af leiknum.
Marvin Valdimarsson sýndi getu sína í kvöld, endaði með 32 stig, 5 fráköst og fína nýtingu. Shouse hélt sínum mönnum á floti í byrjun og skilaði fínum tölum, setti 27 stig og gaf 8 stoðsendingar. Hairston var með 17 stig og 11 fráköst en gæti klárlega skilað enn meiru til liðsins. Hjá Haukum var Terrence Watson algerlega frábær með 29 stig og 18 fráköst! Maðurinn hlýtur að hafa verið í einhvers konar annarlegu ástandi á Ísafirði í síðasta leik! Góður liðsbragur var á Haukaliðinu framan af en næstu menn í stigaskorun voru þeir Haukur og Davíð Páll með 10 stig hvor.
Eitthvað voru þjálfarar liðanna að drífa sig að leik loknum (er verið að endursýna Útsvarið kl. 21:00?), en þó náðist í skottið á Teiti Örlygssyni að lokum og var hann fenginn til að tjá sig lítillega um leikinn.
Þetta var frekar þungt svona til að byrja með hjá ykkur og það var kannski ekki fyrr en í seinni hluta fjórða leikhluta sem liðið byrjaði að malla og vörnin skánaði til mikilla muna?
,,Jájá það er alveg hárrétt, vörnin okkar síðustu sex mínúturnar var mjög góð og þetta var má segja Haukaleikur í svona 35 mínútur. Alveg eins og þeir hafa verið að spila þessa fyrstu leiki og eru bara mjög góðir í. Ég er bara mjög stoltur af strákunum, þeir hættu aldrei og gáfu meira í og urðu bara betri eftir því sem leið á leikinn. Ég er ofboðslega ánægður með það og Haukarnir þurftu að taka gríðarlega erfið skot í fjórða leikhluta og það var það sem gerði gæfumuninn. Við fengum svo mikið af ódýrum stigum hinu megin og óvenju mikið af ,,layup-um“, þegar Justin komst framhjá sínum manni þá var nokkuð greið leið að körfunni .
Það má kannski segja að það vantaði framlag frá fleirum framan af leik, það var einkum Shouse og Marvin sem sýndu sitt rétta andlit. Þetta skánaði svo kannski nokkuð er á leið?
„Jájá, það voru allir sem komu með stórt ,,play“. Það er náttúrulega flott að það eru tveir strákar sem skora yfir 20 stigin sem er mjög jákvætt. Marvin var frábær í dag sem og Justin. Kaninn okkar var svo sterkari og sterkari eftir því sem leið á leikinn og var kannski potturinn og pannan í varnarleiknum, hann var að ,,challenge-a“ eiginlega öll skot inn í teignum og allt erfitt sem þeir voru að gera – hann tekur þá ekki fráköstin en þá er einhver annar af mínum strákum sem tekur þau. Hann gaf sig allan í þetta og frákastaði líka vel í seinni hálfleiknum. Svo komu strákar bara líka með stór ,,play“, Dagur setti t.d. gríðarlega mikilvægt skot niður – hann var þolinmóður og beið bara eftir sínum skotum og setti þau. Við voru þolinmóðir og gerðum færri eða nánast engin mistök í fjórða leikhluta og það er bara mjög jákvætt.“
Umfjöllun/ Kári Viðarsson



