Njarðvíkingar heimsóttu Þór Þorlákshöfn í gærkvöldi og úr varð tvíframlengdur þriller sem fer í sögubækurnar. Leiknum lyktaði með 101-106 sigri gestanna sem komu sér í kjölfarið fyrir ofan Grindavík í þriðja sætinu í Dominosdeildinni en Grindavík á hins vegar einn leik inni. Sá verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport í kvöld.
Í raun skil ég ekki hvernig í ósköpunum Þór var inni í þessum leik svona lengi. 22 tapaðir boltar á venjulegum leiktíma á að duga liði til að tapa frá sér leik. Þessir 5 sem töpuðust í seinni framlengingunni reyndust svo banabiti Þórs. Skilvirkni Þórs var döpur með 44% sóknarnýtingu en skotnýtingin var hins vegar fín eða 50% eFG.
Njarðvík spilaði fínan bolta í leiknum að undanskildum 2. og 3. fjórðung en þá féll sóknarnýting þeirra niður fyrir 50% og niður í 33,5% í 2. hluta. Skotnýting Njarðvíkur var 45,3% en sóknarnýtingin mun betri eða rúmlega 50%.
Athygli vekur að leikhraði leiksins var 89,3 fram að lokum venjulegs leiktíma en í framlengingunum féll leikhraðinn niður í 71,3 sóknir (leiðrétt fyrir leiktíma). Meðaltal leiksins m.v. 40 mínútna leiktíma var 85,7 sem er nær meðaltali liðanna beggja.
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs vakti athygli á að Mike Cook hafi aldrei farið sjaldnar á línuna en í gær og að hann hafi fengið lítið fyrir sinn snúð hvað dómgæsluna varðar. Án þess að tjá sig um ummæli Benedikts eða dómgæsluna sjálfa, þá er vert að benda á að Cook tók 7,5 vítaskot í leik fram að þessum þar sem hann fékk 6. Hins vegar ef skoðaður eru fjöldi vítaskota á móti leiknum mínútum þá er aðra sögu að segja þar sem Cook var með 0,123 á mínútu í fyrstu fjórum leikjunum og 0,125 í leiknum í gær.
Árangur Þórs það sem af er deild er samt vitnisburður um hæfileika Benedikts sem þjálfara. Hann er klárlega að fá það allra besta út úr öllum sínum leikmönnum. Framfarir Ragnars Nathanaelssonar rekur stoðum undir það.
Mike Cook átti þó fínan leik fyrir Þór með 36 stig (16/33), 10 fráköst og 6 stoðsendingar.
Enn einn stórleikurinn hjá Elvari Friðrikssyni en hann setti 37 stig (13/25) á Þórsara og bætti 7 stoðsendingum og 6 fráköstum við. Hann sló engu slöku við í vörn heldur og stal 6 boltum. Hann hitti illa fyrir utan en skotnýtingin hans var þó fín í heildina eða 52%.
Elvar brenndi af þremur vítum í gærkvöldi sem þýðir að hann er með 30/35 í vítum sem gerir 85,7% og missir hann því sæti sitt í 50/40/90 klúbbnum. Tímabundið, án efa. Við fylgjumst hins vegar með því hverjir tolla þarna inni, koma nýir inn eða það sem mestu máli skiptir – hverjir verða þarna þegar tímabilinu er lokið.



