Njarðvíkingar heimsóttu Vesturbæinga í DHL-höllina í kvöld. Fyrir leikinn voru KR-ingar ósigraðir eftir fimm umferðir en Njarðvíkingar höfðu unnið fjóra leiki og tapað einum. Þess má þó geta að Njarðvíkingar slógu KR úr bikarnum fyrr í mánuðinum og áttu heimamenn harma að hefna. Það mátti því búast við hörkuleik í kvöld þar sem tveir bestu leikstjórnendur Íslendinga, Martin Hermannsson og Elvar Friðriksson leiddu hesta sína saman. Áður en að leikar hófust gerðust heimamenn gjafmildir og grýttu vatnsbrúsum í áhorfendur sína sem áttu fótum sínum fjör að launa.
KR-ingar byrjuðu leikinn af krafti og tóku 3 sóknarfráköst í sinni fyrstu sókn. Gestirnir virtust vera eitthvað seinir í gang og nældu sér í 3 villur á fyrstu mínútunni. Heimamenn komust fljótt í 7-0 og stálu boltanum ítrekað af þeim grænklæddu sem máttu sín lítils inn á vellinum. Vörn KR-inga var gríðarsterk og gestirnir fundu fáar leiðir að körfunni á meðan að heimamenn höfðu minna fyrir sínum stigum. KR-liðið náði muninum fljótlega upp í tveggja stafa tölu 21-10 og litu satt að segja mjög vel út. Njarðvíkingar höfðu fá svör við ógnarsterkum varnarleik þeirra strípóttu og staðan var 33-17 eftir fyrsta fjórðung þar sem stigaskori beggja liða var drengilega dreift á milli manna. Athygli vakti að leikhlutinn var fremur hart leikinn en heilar 14 villur voru flautaðar í fjórðungnum.
Njarðvíkingar hófu annan leikhluta í svæðisvörn en það virtist hafa lítil áhrif á KR-inga sem skoruðu fyrstu 7 stig fjórðungsins. Það hvorki gekk né rak hjá gestunum en heimamenn komu stöðunni í 45-22 þar sem Martin var stórkostlegur og bauð upp á rándýrar hreyfingar og tvö ,,and1” með stuttu millibili. Það leið ekki á löngu þar til munurinn var kominn upp í þrjátíu stig, 56-26, en á þessum kafla voru Njarðvíkingar að reyna mjög erfið skot í sókn sinni. Staðan í hálfleik var 59-32 heimamönnum í vil og ekkert benti til þess að leikurinn yrði spennandi. Leikstjórnendurnir ungu leiddu báðir sín lið í hálfleik en Martin var með 17 stig og Elvar 11.
KR-ingar héltu áfram uppteknum hætti og byrjuðu þriðja fjórðung af krafti og settu 8 fyrstu stig leikhlutans. Ekki skánaði ástandið hjá gestunum þar sem Logi Gunnarsson fékk sína fjórðu villu í upphafi fjórðungsins og fékk sér sæti á tréverkinu. KR kom stöðunni í 67-34 og náðu síðan 40 stiga forskoti 76-36 og algjört vonleysi einkenndi gestina. Njarðvíkingar með Elvar í fararbroddi, náðu þó að bjarga andlitinu fyrir lok leikhlutans og munurinn ,,aðeins” 33 stig eftir þriðja fjórðung, 78-45. Þess má geta að Nigel Moore var aðeins með 3 stig eftir 3 leikhluta sem hlýtur að teljast óásættanlegt.
Þótt sigur KR-inga væri staðreynd börðust Njarðvíkingar ágætlega í fjórða leikhluta og náðu að narta í forskot heimamanna sem gáfu kannski heldur eftir. Elvar sem var langbesti leikmaður gestanna í þessum leik sýndi mikla baráttu og setti nokkra ,,miðbæjarþrista” ásamt því að Moore vaknaði aðeins til lífsins. Lokatölur voru 96-72 og KR-ingar enn með fullt hús stiga.
Í liði gestanna var áðurnefndur Elvar Friðriksson bestur en hann skoraði 28 stig og hirti 6 fráköst. Martin Hermannsson var atkvæðamestur heimamanna með 24 stig en Pavel átti einnig stórfínan leik og skoraði 16 stig ásamt því að rífa niður 16 fráköst og gefa 7 stoðsendingar.
Viðtöl við þjálfara liðanna
Einar Árni, þjálfari Njarðvíkinga
Einar, vörnin hjá KR var loftþétt og vatnsþétt og það var bara eins og þið ættuð aldrei neinn séns í þessum leik?
,,Neinei, það má hrósa KR fyrir þeirra leik, þeir voru bæði sterkir varnarlega og voru líka bara öflugir sóknarlega. En þeir litu kannski fullvel út að mínu viti vegna þess að við vorum ofboðslega daufir og andlausir frá fyrstu mínútu og vorum veikir sóknarlega. Við vorum svo bara ekki til staðar varnarlega, sérstaklega í fyrri hálfleik. „
Þetta er væntanlega ykkar lélegasti leikur í vetur?
,,Jájá klárlega og við verðum að trúa því og treysta að þetta verði okkar langlélegasti leikur í vetur. Það verður að segjast alveg eins og er að við vorum bara víðsfjarri og lykilmenn hjá okkur týndir og liðið einfaldlega sem heild. Við verðum bara að skoða okkur upp á nýtt og vinna vel í okkar málum því þetta þetta dugir ekki til merkilegs árangurs svona frammistaða.“
Má taka eitthvað jákvætt úr þessum leik?
,,Á þessari stundu, nei það er voðalega erfitt að sjá eitthvað jákvætt, við erum keppnismenn og við vitum sem er að við erum með gott körfuboltalið og í kvöld mættum við öðruvísi en við eigum að venjast og ,,lúkkuðum“ ekki sem lið og það útaf fyrir sig er bara risa mínus fyrir okkur og við verðum bara að vinna í því og gíra okkur upp fyrir næsta slag sem er gegn Haukum.“
Mér fannst liðið mega eiga það að reyna fram á síðustu sekúndu að laga stöðina og það er kannski jákvæður punktur?
,,Jújú, maður reyndi auðvitað að spila sem er náttúrulega erfitt í þessari stöðu því að við vorum búnir að grafa okkur helvíti djúpa holu strax í fyrri hálfleik. Ef maður leitar eftir einhverju þá voru menn að reyna en það er voða lítil birta í myrkrinu akkúrat þessa stundina.“
Finnur Stefánsson, þjálfari KR:
Finnur, þið buðuð upp á svakalegan varnarleik, sérstaklega í fyrri hálfleik. Var það ekki það sem skóp sigurinn í dag?
,,Jújú, engin spurning. Við vorum mjög ósáttir með hvernig við komum út varnarlega í Njarðvík á dögunum og höfðum svo sem ekki verið að sýna okkar sterkustu hlið þar en nú var allt annað að sjá liðið, talandi og stemmning og við náðum að gera það sem við ætluðum að gera.
Þið eruð 6-0 núna, nýr Kani kominn frá ÍR og allt upp á við– líst þér ekki afar vel á þetta enn sem komið er?
,,Jújú, það er ágætis gangur í þessu og sérstaklega eftir leikinn í kvöld sem er bæting frá síðustu leikjum. En það er mikið eftir af mótinu og það þýðir ekki að fagna einhverjum sigrum um of. Við bara horfum fram á við og hlökkum til að mæta Keflavík á mánudaginn.“
Mynd/ [email protected] – Martin Hermannsson til varnar en hann var stigahæstur í liði KR í kvöld með 24 stig.
Umfjöllun: ÞÖV



