spot_img
HomeFréttirAugnablik í kjúklingasúpu á Selfossi

Augnablik í kjúklingasúpu á Selfossi

FSu. vann Augnablik næsta auðveldlega í 1. deild karla í gærkvöld. Leikurinn, sem fram fór í Iðu var ekki sá skemmtilegasti (raunar drepleiðinlegur í fullri hreinskilni) og úrslitin 100-82 (Ritari hálfsér eftir því að hafa látið hávaðarok og mígandi rigningu aftra sér frá því að renna að Hlíðarenda til að sjá Valsliðið vinna sinn fyrsta sigur í Dómínósdeildinni!).
 
 
Þó í liði Augnabliks séu nokkrir leikmenn sem kunna að spila körfubolta, og voru jafnvel sumir nokkuð góðir einu sinni, þá er þetta bumbulið ekki upp á marga fiska. Þeir voru reyndar aðeins 7 sem ómökuðu sig austur yfir Fjall, svo kannski vantaði einhverjar kanónur í liðið.
 
Það er auðvitað gömul saga að það er engin leið að spila gegn svona liði. Heimamenn voru ekki með fókusinn alveg nógu vel stilltan og gerðu allt of mikið af óþarfa mistökum. Sennilega voru margir strákarnir full spenntir að nýta tækifærið sem nú gafst til að sanna sig fyrir þjálfaranum. Mestur varð munurinn 87-52 á 34. mínútu en drengjaflokkur FSu. kláraði leikinn og gestirnir nýttu sér ágætlega þyngdarmuninn undir körfunum síðustu mínúturnar og minnkuðu muninn. Birkir Guðlaugsson hefur ekkert stirnað í úlnliðnum og setti 29 stig fyrir Augnablik og þeir Leifur Árnason, Sigmar Logi Björnsson og Gylfi Geirsson sýnast hafa gleymt fáu, öðru en kannski hraðanum.
 
Þjálfari FSu. nýtti þennan leik til að hleypa að þeim leikmönnum sem ekki hafa spilað mikið hingað til, reyndar lítið, enda hefur upphaf mótsins verið býsna bratt hjá FSu.: leikir gegn Þór, Hetti, Tindastóli og Breiðabliki þegar að baki og ekki hefur veitt af að keyra á sterkasta kjarnanum í þeim viðureignum. En nú fengu unglinga- og drengjaflokksstrákarnir fullt af mínútum og bættu í reynslubankann.
 
Nafn Erlends Ágústs Stefánssonar ættu áhugamenn að setja á minnið, þ.e. þeir sem hafa ekki gert það nú þegar. Þessi strákur er mjög efnilegur, en það sem gleður mest er viðhorf hans og dugnaður. Baráttuforkur sem á eftir að verða mjög öflugur varnarmaður og hefur að auki góða tilfinningu fyrir stað- og tímasetningum sem er árangursríkur eiginleiki, t.d. í sóknarfráköstum. Elli skoraði 28 stig og nýtingin var frábær, 67%. Geir Helgason skoraði 14 stig og skotnýting hans var hvorki meira né minna en 83%!!! Hér er á ferðinni efni í ótrúlega skyttu (bikarleikurinn gegn Aftureldingu um daginn gleymist seint). Birkir Víðisson skoraði 8 stig og þegar sjálfstraustið kemst á flug verður hann líka magnaður leikmaður. Arnþór lagði sitt af mörkum eins og vanalega, með 9 fráköst, 8 stig og 50% nýtingu. Fleiri strákar af bekknum fengu gæðamínútur og það er gleðilegt einkenni á öllum þessum strákum hve mikið þeir eru tilbúnir að leggja á sig fyrir liðið. Fyrir vikið eru þeim hér með fyrirgefin ýmis mistök í sóknarleiknum. Þau eru auðvitað eðlilegur hluti af þróuninni. Enginn verður víst óbarinn biskup! Byrjunarlið FSu var í aukahlutverki í gær og varaðist greinilega að taka mikið til sín, en tölfræði leiksins má skoða nánar hér.
 
Umfjöllun/ Gylfi Þorkelsson
 
  
Fréttir
- Auglýsing -