Njarðvíkingum var fyrir tímabilið spáð ofarlega í töfluna og tímabilið hefur farið vel af stað hjá þeim en í gær lentu þeir á röndóttum vegg. Fyrir leik var tölfræðin þeim svo sem ekki í hag því Njarðvíkingar hafa ekki unnið leik í DHL-Höllinni síðan árið 2006!
KR jarðaði Njarðvíkinga í gær og þó munurinn hafi aðeins verið 24 stig í lokin voru Njarðvíkingar aðeins með 45 stig á töflunni eftir 30 mínútna leik og munurinn á 40 stiga bilinu á köflum! Síðasti deildarsigur grænna í Vesturbænum kom þann 16. október 2005 en síðasti sigur liðsins gegn KR í DHL-Höllinni var sama tímabil í úrslitakeppninni (2006).
Þann 17. nóvember 2008 hófst svo athyglisverður kafli hjá KR og Njarðvík í Vesturbænum en þá steinlágu Njarðvíkingar með 55 stiga mun! Lokatölur í þeim leik voru 103-48 fyrir KR! Eftir þessa sögulegu útreið hefur Njarðvík tapað öllum leikjum í Vesturbænum með meira en 10 stiga mun eða 21,67 stiga mun að jafnaði.
Ef þetta kallast ekki „grýla“ þá er hún gamla Grýla dauð og gafst hún upp á rólunum en þær rólur finnast ekki á leikvöllum, gaman er þess að geta að rólur í vísunni um Grýlu merkja að vera á flækingi en á honum gafst Grýla upp. Flækingur er svo kannski ágætis lýsing á frammistöðu Njarðvíkinga í DHL-Höllinni síðustu ár.
Stærstu ósigrar Njarðvíkinga gegn KR í Vesturbænum:
1973: KR 110-78 UMFN (32 stig)
1974: KR 85-61 UMFN (24 stig) – 2013: KR 96-72 Njarðvík (24 stig)
17. nóvember 2008: KR 103-48 UMFN (55 stig)
Stærsti sigur Njarðvíkinga gegn KR í Vesturbænum:
21. nóvember 1993: KR 78-100 UMFN (22 stig)



