spot_img
HomeFréttirNat-Vélin setti Íslandsmet

Nat-Vélin setti Íslandsmet

Miðherjinn Ragnar Á. Nathanaelsson setti nýtt met í íslensku úrvalsdeildinni á fimmtudagskvöld þegar hann varði tíu skot í einum og sama leiknum. Ragnar sem einnig er þekktur sem Nat-vélin var með þrennu í leiknum sem reyndist eina þrennan til þessa á tímabilinu sem komið hefur í tapleik.
 
 
Ragnar gerði 14 stig, tók 10 fráköst og varði 10 skot í leiknum á fimmtudag en eftir því sem Karfan.is kemst næst var það John Rhodes sem deildi gamla metinu með Junior Hairston og Igor Tratnik.
 
Árið 1996 varði Rhodes 9 skot í leik ÍR og Þórs frá Akureyri þar sem ÍR hafði sigur 84-73. Junior Hairston og Igor Tratnik vörðu einnig báðir 9 skot tímabilið 2011-2012. Hairston í viðureign Þórs Þorlákshafnar og Hauka og Tratnik í viðureign Vals og Hauka.
 
Karfan.is ráðfærði sig við sögufróða menn og varð það ofan á að miðað við þau gögn sem komist hafði verið yfir að 10 varin skot hjá Ragnari væru Íslandsmet. Ef einhver þarna úti veit betur og getur rekið þetta ofan í okkur þá er sá hinn sami beðinn um að hafa samband á [email protected]
 
Ragnar er svo með 14,5 stig, 12,2 fráköst og 22,8 framlagsstig að meðaltali í leik í úrvalsdeildinni þetta tímabilið en hann hefur leikið sex leiki með Þór Þorlákshöfn. Til samanburðar má þess geta að hann var aðeins með 9,1 stig, 11,8 fráköst og 19,4 framlagsstig að jafnaði með Hamri í 1. deild á síðustu leiktíð. Sumarið er tíminn! Nat-vélin er bara að minna körfuknattleiksmenn á það.
 
UPPFÆRT (16.nóv kl. 21:35)
-Leikjahæsti leikmaður íslensku úrvalsdeildarinnar, Marel Örn Guðlaugsson, hafði samband við Karfan.is og eftir upplýsingar frá Marel kom í ljós að Ragnar jafnaði Íslandsmet sem staðið hafði frá árinu 2001 en það setti Mike Bargen í viðureign ÍR og Hauka er hann varði 10 skot. Þá vitum við um tvo leikmenn sem varið hafa 10 skot í efstu deild karla í einum leik. Eftir stendur hjá Ragnari að hann er eini íslenski leikmaður deildarinnar sem varið hefur 10 skot….þangað til annað kemur í ljós.
Við gefum okkur áfram næstu daga til að halda áfram að grafa eða reiða okkur á sendingar eins og þessa sem Marel var að bjóða upp á.
 
Mynd úr safni/ [email protected] – Ragnar hefur leikið vel með Þór á yfirstandandi tímabili.
Fréttir
- Auglýsing -