KR vann öruggann sigur á liði Njarðvíkur í Dominosdeild kvenna í kvöld í DHL höllinni. Fyrir leikinn sátu liðin tvö jöfn á botninum með 2 sigra úr fyrstu 9 leikjunum og því ljóst að annað liðið sæti eitt á botninum eftir leikinn. Njarðvík vann fyrstu viðureign liðanna 84-79 en fór svo leikur fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík.
Það leið ekki á löngu þar til ljóst var í hvað stefndi í leiknum í kvöld. KR liðið spilaði fantagóða vörn frá fyrstu mínútu sem bakverðir Njarðvíkur réðu engan veginn við. Auðveldar körfur úr hraðupphlaupum hrönnuðust upp hjá heimamönnum á meðan Jasmine Beverly reyndi veikum mætti að halda gestunum inní leiknum. Eftir fyrsta leikhluta var staðan 22-9 fyrir KR þar sem Ebony Henry var komin með 9 stig fyrir KR.
Njarðvíkurliðið skipti yfir í svæði í öðrum leikhlutanum og viðþað hikstaði sóknarleikur KR. Njarðvík náði að minnka muninn í 27-22 en þá fór Sigrún Sjöfn Ámundadóttir í gang og smellti niður 3 þristum á stuttum tíma og fóru KR-ingar með 14 stiga forskot inní háflleikinn, 36-22.
KR liðið gerði síðan útum leikinn á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins með því að skora fyrstu 9 stigin á meðan Njarðvíkur liðið var í mesta basli að koma boltanum yfir miðjuna gegn stífri vörn KR. Eftirleikurinn reyndist auðveldur fyrir KR sem að lokum vann öruggan 86-47 sigur.
Vestubæingar léku greinilega sinn langbesta leik í vetur og má segja að þær hafi loksins mætt til leiks í Íslandsmótið með þessari frammistöðu. Ebony Henry og Sigrún Sjöfn báru af í stigaskoruninni en liðsheildin var beittasta vopnið hjá liðinu í kvöld. Hjá Njarðvíkingum var fátt um fína drætti. Liðið er ungt og efnilegt en því gekk bölvanlega að stilla uppí sóknir í kvöld og endaði liðið með 30 tapaða bolta sem oftar en ekki enduðu með körfum á hinum endanum. Jasmine Beverly reyndi með veikum mætti að halda liðinu inní leiknum í fyrri hálfleik en fékk sjaldan boltann í þeim seinni.
Næsti leikur KR liðsins er gegn Haukum í DHL höllinni eftir viku en Njarðvíkingar mæta sjóðheitum Snæfellingum.
Mynd úr safni / Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með 25 stig og 14 fráköst í liði KR í kvöld.



