Mikilvægi leikmanna eins og Darra Hilmarssonar er erfitt að túlka í tölum. Þeir smita út frá sér til annarra leikmanna með baráttu og orku. Líkt og hann sagði sjálfur eftir leik KR gegn Keflavík á mánudaginn, þá þarf oft bara einhvern einn til að berjast eins og villidýr til að skapa stemningu í liðinu sem erfitt er fyrir andstæðinga að fást við. En eins og lesendur Ruslsins og Karfan.is ættu að vita þá látum við ekki þar staðar numið. Við reynum að túlka allt með tölum.
Tölfræðin hans Darra er samt ekkert drasl. 13,7 stig og 3,1 frákast í leik. Darri er einnig frábær varnarmaður með tæplega 2 stolna bolta í leik, mest allra KRinga. Hann er einnig með hæsta STL% KRinga eða 15,3%. Hann tapar fáum boltum eða tæplega einum í leik og er með lægsta TOV% allra KRinga eða 7,1% sem er það sjöunda besta í deildinni allri.
Darri er þokkalega skilvirk skytta með 59% eFG, 56,6% sóknarnýtingu og skorar 1,285 stig per sókn og kemur næst á eftir Martin Hermannssyni í þeim flokki. PER gildið hans eftir 6 leiki er 15,8 sem er rétt yfir meðaltali deildarinnar.
Darri er í fimmta sæti deildarinnar í +/- tölfræði með +89 en það er eftir 7 leiki þegar flest önnur lið eiga eftir að spila sinn sjöunda leik. Ef skoðuð er +/- tölfræði leikmanna með tilliti til mínútufjölda er hann í níunda sæti með +0,411.
Eins og sést hér að ofan þá er erfitt að mæla framlag leikmanns eins og Darra Hilmarssonar á megindlegan hátt. Það ætti hins vegar að segja fólki eitthvað að hann er í fjórum af þeim fimm bestu liðsuppstillingum sem gefa flest plús stig fyrir KR. Hann er líka í aðeins tveim af þeim fimm sem gefa flest mínus stig.
Það sem bendir einna helst á framlag Darra til KRinga er að hann hefur spilað flestar mínútur í heildina eða rúmlega 216 mínútur og KR hefur ekki tapað leik. Gefur til kynna að Finnur Stefánsson, þjálfari KR, treystir honum fyrir öllum þessum leiktíma. Darri hefur líka verið í byrjunarliði KR í öllum sjö leikjum liðsins í vetur.
Agaður og skilvirkur körfubolti og fá mistök eru að mínu mati það sem best lýsir Darra sem körfuboltaleikmanni og stór þáttur í velgengi KRinga í vetur.



