spot_img
HomeFréttirÁhrif og afleiðingar meiðsla Derrick Rose

Áhrif og afleiðingar meiðsla Derrick Rose

Derrick Rose reif innri liðþófa í hægra hné (Medial Meniscus á myndinni hér að neðan) í leik gegn Portland Trail Blazers í síðustu viku. Það er ekki sama hnéið og hann sleit krossböndin í árið 2012 en lengi vel héldu menn að hér væri um krossbandaslit að ræða einnig. Liðþófaskemmdir eru í sjálfu sér ekki alvarleg meiðsli og meðferð getur verið fljótt afgreidd en getur einnig verið löng og erfið – fer allt eftir því hvar og hversu illa liðþófinn er rifinn og hvaða aðgerð er valin.
 
 
Tvær mögulegar aðgerðir eru gerðar í tilfelli liðþófaskemmda. Ef skemmdin er mikil er hún skafin af en við það minnkar brjóskið í liðnum. Leikmaðurinn getur snúið aftur til æfinga eða leiks eftir tvær vikur eða svo þar sem brjóskið er fljótt að jafna sig eftir aðgerðina. Gallinn hins vegar er sá að þetta getur haft áhrif á feril leikmannsins til langs tíma og jafnvel stytt ferilinn fyrir einhverja. Dwyane Wade fór í slíka aðgerð á vinstra hné þegar hann spilaði í háskóla og hefur verið í vandræðum með það síðan.
 
Hið aðgerðin er kölluð á ensku “reattachment procedure” sem felur í sér viðgerð á liðþófanum í stað þess að fjarlægja hann. Þetta er einungis hægt ef skemmdin er við ysta jaðarinn á liðþófanum þar sem blóðflæðið er mest. Rifan er þá saumuð saman og sem felur í sér töluvert lengri batatíma.
 
 
Derrick Rose fer í dag í síðarnefndu aðgerðina og hefur verið skilgreindur frá leik í ótilgreindan tíma. Sérfræðingar í faginu hafa gefið þessu 4-6 mánuði með endurhæfingu. Russell Westbrook fór í sömu aðgerð á ytri liðþófa í apríl og snéri aftur núna í byrjun nóvember.
 
Hvaða áhrif munu þessi meiðsl hafa á Rose sem leikmann? Hann snéri ekki aftur eftir liðbandaslitin fyrr en eftir 18 mánuði og þó snerpan og hraðinn sé enn til staðar þá voru tímasetningar og skotið hans ekki í takt og var hann ekki að skila þessum MVP tölum sem hann hafði gert áður. Oft er vöðvaminnið sterkt hjá mönnum eftir meiðsli og áhrifin mest á hugarfar manna þó líkaminn sé reiðubúinn til átaka.
 
Derrick Rose hefur verið frá í 116 af þeim 405 leikjum sem Bulls hafa spilað síðan hann var valinn nr. 1 í nýliðavalinu 2008. Ef hann spilar ekkert þetta tímabilið verða leikirnir 187 af 476. Þetta er óneitanlega stór biti og mikil fjarvera frá körfubolta og nöfn eins og Brandon Roy, Penny Hardaway og Greg Oden óma í bakgrunni þegar maður veltir þessu fyrir sér. Á hann möguleika á að koma jafnsterkur til baka? Stuðningsmenn Bulls vona það svo sannarlega en aðeins tíminn getur leitt það í ljós.
 
Undanfarið hefur Chicago Bulls félagið verið suðupottur ágreinings milli stjórnenda og þjálfarateymis. Sífelld valdabarátta milli þessara eininga innan félagsins er ekki til þess að bæta ástandið. Gar Forman, framkvæmdastjóri félagsins, rak nýverið aðstoðarþjálfara Tom Thibodeau vegna þessa ágreinings. Nú þegar þessi raunveruleiki blasir við, þ.e. að Derrick Rose verði frá enn eitt tímabilið er ekki ólíklegt að Forman og eigandinn Jerry Reinsdorf freistist til að setja liðið enn og aftur enduruppbyggingarfasa. Loul Deng er á síðasta ári síns samnings og stjórnendur félagsins sýnt tregðu til að semja aftur við hann, þvert á óskir þjálfarans. Stjórnendurnir sjá meiri framtíð í Jimmy Butler. Carlos Boozer hefur ekki skilað arði síðan hann var hann samdi við félagið sumarið 2010. Hann hefur verið orðaður við Amnesty-klausuna þar sem Bulls geta hent honum út af launaskrá og þá undan launaþakinu. Bekkur liðsins er ekki svipur hjá sjón frá því hann var einn sá sterkasti í deildinni tímabilið 2010-2011.
 
Breytingar eru í loftinu í Chicago og sérstaklega nú þegar búist er við mest spennandi nýliðaárgangi síðan 1996 næsta sumar. Jerry Reinsdorf er alræmdur nískupúki og óhræddur við að leysa upp lið á meistarakaliberi, líkt og hann gerði sumarið 1998, bara vegna þess að arðsemiskröfur hans ganga ekki í takt við kröfur stuðningsmanna um árangur og meistaratitla.
Fréttir
- Auglýsing -