spot_img
HomeFréttirTindastóll með sigur á Akureyri

Tindastóll með sigur á Akureyri

Tindastóll fór með níu stiga sigur af hólmi í miklum baráttuleik í gærkvöld gegn Þór 40-49 í 1. deild kvenna en liðið náði mest 13 stiga forystu í þriðja leikhluta. Það var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins að bæði liðin ætluðu sér sigur í leiknum enda einkenndist leikurinn af mikilli baráttu sem hafði áhrif á gæði körfuboltans lengst af. Þórsstelpur byrjuðu betur og höfðu yfir fyrstu mínúturnar en gestirnar komust yfir 7-9 og leiddu það sem eftir lifði leiks. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 9-18 gestunum í vil.
 
Þeir Ólafur Aron og Bjarki Ármann sem í sameiningu stýra liðinu í heimaleikjunum náðu að stappa stálinu í Þórsliðið sem kom ákveðið til leiks í öðrum leikhluta. Mikil barátta beggja liða út um allan völl einkenndi leikinn en Þór hafði betur í fjórðungnum 12-11 og gestirnir leiddu með 8 stigum í hálfleik 21-29.
 
 
Í þriðja leikhluta snérist svo dæmið aftur við og gestirnir voru ávallt skrefinu á undan og náðu mest 13 stiga forskoti. Þegar þriðja leikhlutanum lauk höfðu gestirnir 12 stiga forskot 30-42.
 
 
Í fjórða og síðasta leikhlutanum reyndu Þórsstelpur allt hvað þær gátu til að minnka muninn í leiknum. Með mikilli baráttu tókst þeim að vinna leikhlutann en þó ekki með nema þremur stigum 10-7 og gestirnir fögnuðu 9 stiga sigri 40-49.
 
Leikur liðanna var þrátt fyrir allt nokkuð fjörugur enda lögðu leikmenn beggja liða sig 100% fram. Tapaðir boltar og heldur slök skotnýting varð Þórsliðinu dýrkeypt. Varnaleikur liðsins var til fyrirmyndar eins og sést á stigaskori gestanna og er þetta næst minnsta stigaskor þeirra í mótinu til þessa.
 
 
Margrét Albertsdóttir og Erna Rún Magnúsdóttir voru stigahæstar í liði Þórs með 11 hvor. Hjá Gestunum var Tashawna Higgins stigahæst með 12 stig, Linda Þórdís Róbertsdóttir 10 og Briet Lilja Sigurðardóttir með 7.
 
 
Staðan í 1. deild kvenna
Deildarkeppni
Nr. Lið U/T Stig
1. Breiðablik 5/0 10
2. Fjölnir 4/1 8
3. Tindastóll 4/2 8
4. Stjarnan 4/2 8
5. Grindavík b 2/3 4
6. Þór Ak. 2/4 4
7. FSu 1/5 2
8. Laugdælir 0/5 0
  
Fréttir
- Auglýsing -