spot_img
HomeFréttirÁtakalítill Keflavíkursigur

Átakalítill Keflavíkursigur

 Það voru svo sem engin mikil tilþrif í kvöld þegar Keflavíkurstúlkur tóku á móti nággrönnum sínum í Njarðvík í úrvalsdeild kvenna. Keflavík hirti á endanum  nokkuð þægilegan 70:48 sigur eftir að aðeins 5 stig skildu liðin í hálfleik.  Keflavík heldur því toppsætinu með 20 stig en fyrrum meistarar Njarðvíkur verma botninn með 4 stig eftir 12 leiki.  Fyrir leik var einnar mínútu þögn til minningar um Ragnheiði Ragnarsdóttur sem lést á föstudag eftir hetjulega baráttu við krabbamein. En Ragnheiður var eiginkona Alberts Óskarssonar fyrrum leikmanns og núverandi stjórnarmanns Keflavíkur og móðir Ragnars Gerald sem leikur með Keflavík. 
 Keflavík hóf leikinn töluvert betur og náðu strax nokkuð öruggri forystu. Njarðvíkurstúlkur naga eflaust á sér handabakið þar því  hvað eftir annað voru þær að ná sóknarfráköstum og fá “annan sénsinn” í sókninni, en nýttu það mjög illa.  Akkilesarhæll Keflavíkur í allan vetur hefur einmitt verið frákastabaráttan en sem fyrr segir kom það ekki að sök í þetta skiptið.  Þegar líða tók á þriðja leikhluta vöknuðu gestirnir í grænu og voru að spila bara nokkuð vel. Minnkuðu þann 12 stiga mun sem Keflavík hafði byggt upp í fyrsta fjórðung niður í 5 stig og allt leit út fyrir að jafnt yrði jafnvel á með liðum til loka. 
 
En seinni hálfleikur var eign Keflavíkur og Njarðvíkurstúlkur í mesta basli með að skora. Nýting Njarðvíkur segir svo sem megnið af sögunni en 31% nýting í skotum kemur ekki til með að sigra leiki. Ofaní það töpuðu Njarðvíkurstúlkur 24 boltum.  Hinsvegar voru Keflavíkurstúlkur ekkert langt undan í þeim flokknum því þær enduðu með 20 tapaða bolta. 
 
En sem fyrr segir voru það Keflavík svo einfaldlega voru sterkari aðilinn í leiknum og vel að sigrinum komnar þrátt fyrir að hafa ekkert verið að spila neitt ýkja vel þetta kvöldið.  Sem fyrr segir þá var fátt um fína drætti í þessum leik og engir leikmenn að sýna neinn stjörnuleik. Keflavíkurstúlkur voru nokkuð jafnar í sínum leik en hjá Njarðvík var Jasmine Beverly best að þessu sinni með 21 stig. 
 
Fréttir
- Auglýsing -