KR-ingar fengu Þór frá Þorlákshöfn í heimsókn í kvöld í DHL-höllina. Heimamenn hafa verið óstöðvandi í deildinni og látið hvern andstæðinginn á fætur öðrum líta illa út. Þórsarar hafa átt misjöfnu gengi að fagna til þessa en léku Skallagrímsmenn grátt í síðasta leik og höfðu því ástæðu til að mæta með von í hjarta í Vesturbæinn.
Liðin tóku hlutunum rólega til að byrja með í kvöld og stigin skiluðu sér hægt á töfluna. Það var helst skemmtileg tilraun Magna til að troða yfir Nat-vélina sem gladdi augað en hún misfórst og því miður fyrir Magna getur hann ekki ornað sér að síðkveldum við þá minningu. KR-ingar voru fyrri til að skipta úr hlutlausum í fyrsta gír og sigu fram úr. Staðan 23-15 eftir fyrsta fjórðung. Athygli vakti að 8 leikmenn heimamanna höfðu skorað í leikhlutanum!
KR-ingar virtust ekkert sérstaklega áhugasamir í byrjun leiks en fundu leikgleðina í öðrum leikhluta. Vörn þeirra varð þéttari og reyndar þurfti kannski ekki mikið til því gestirnir gerðu heimamönnum lífið auðvelt með ansi dapurlegum sóknartilburðum. Á hinum endanum mátti líta andstöðu þess fyrrnefnda því sóknarleikur KR-inga gekk eins og í sögu og varnarleikur gestanna ekki til eftirbreytni. Staðan allt í einu 42-21 og á brattann að sækja hjá Þórsurum. Benni tók leikhlé og reyndi að brýna sína menn en það hafði engin áhrif. KR-ingar léku við hvurn sinn fingur og buðu upp á ,,Harlem Globetrotters“ sýningu á köflum með glæsilegu samspili og flottum tilþrifum. Þeir tættu veikburða vörn Þórsara í sig ítrekað og negldu galopin skotin sem sköpuðust af miklu öryggi. Margir lögðu í púkkið en fremstur var þó Helgi Már. Gestirnirnir létu bresta á með svæðisvörn en fengu ekkert nema þrista í andlitið fyrir vikið. Staðan 61-31 í hálfleik og ekki beint spennandi síðari hálfleikur í sjónmáli.
Þórsarar mættu ákveðnir til síðari hálfleiks og vildu greinilega koma í veg fyrir niðurlægingu. Það gekk að því leytinu til að munurinn jókst ekki en forskot heimamanna fór hins vegar aldrei mikið niður fyrir 30 stigin. Græni drekinn gerði lítið til að hjálpa sínum mönnum og var í mýflugumynd. Þeirra framlag var ekki af þroskuðustu sort en þeir vændu leikmann KR-inga um ergi er hann tók tvö vítaskot í mesta sakleysi. Það hefði engin áhrif, bæði ofan í og svona framkoma til háborinnar skammar. Staðan eftir þriðja 85-54 og úrslitin ráðin.
Ruslamínúturnar svokölluðu voru rúmar sex talsins og með fullri virðingu fyrir minni spámönnum liðanna var körfuboltinn ekki til upptöku, enda úrslitin löngu ráðin. Helst voru nokkrir þristar beggja liða sem nærðu fegurðarskyn áhorfenda. Vægast sagt öruggur sigur KR-inga, 111-79 og liðið ekki árennilegt.
KR-ingar hafa gríðarlega breidd en Helgi var stigahæstur með 22 stig og glæsilega nýtingu. Darri var líka frábær með 16 stig og Pavel splæsti í enn eina þreföldu tvennuna með 11 stig, 11 stoðsendingar og 14 fráköst. Mike Cook var atkvæðamestur gestanna með 23 stig og Halldór Hermannsson sýndi svo lipra takta og setti 15 stig.
Benedikt Guðmundsson og Helgi Már Magnússon voru teknir tali eftir leik:
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Þórs:
Benni, KR-liðið virðist vera bara algerlega ókleifur múr?
Já, við áttum alla vega ekki séns hérna í kvöld og þetta lið er bara á öðru ,,leveli“. Eru þeir ekki að taka öll liðin nokkuð örugglega? Við höldum bara áfram, við eigum mikilvægan bikarleik á sunnudaginn og bara gírum okkur fyrir það.
Ef við tölum aðeins um stöðuna í deildinni – nú takið þið Skallagrímsmenn í síðasta leik og hakkið þá í ykkur og svo eruð þið allt í einu komnir í þeirra spor hérna. Það sýnir kannski að það er svolítið mikill munur á betri liðunum og slakari liðunum í deildinni?
Jájá, það var alveg vitað fyrir tímabilið að með nýjum reglum yrði mikill getumunur á milli stærri og minni liðanna og hann er að sýna sig annað slagið – það koma stórir sigrar í þessari deild. En við höldum bara áfram að berjast í þessari baráttu og við ætlum ekkert að fara að taka þetta of mikið inn á okkur, það er stutt í næsta leik og bara áfram gakk.
Varstu ósáttur með dómara leiksins?
Nei nei, alls ekki. Þeir höfðu ekkert að gera með úrslit þessa leiks. Við verðum bara að einbeita okkur að okkur og reynum að vera betri í næsta leik.
Helgi Már Magnússon, KR:
Þetta var bara ansi þægilegt hjá ykkur í kvöld?
Jájá, við bara spiluðum af krafti og vorum bara nokkuð góðir í kvöld.
Það má kannski segja að það sé ansi notalegt að komast einhverjum 20 stigum yfir mjög snemma og þá eru öll skot pressulaus og þá rúllar þetta afar þægilega.
Jájá, ég hef nú trú á því að mánudagsleikurinn hafi kannski setið eitthvað í Þórsurum – gæti trúað því, en við vorum bara góðir, gott boltaflæði og stigaskorið dreifist vel og allir bara á tánum.
Það er þekktur frasi í íþróttunum að það sé mikilvægt að toppa á réttum tíma – eigið þið enn eftir að toppa?
Við eigum fullt inni! Við erum ekkert að spila frábærlega – jújú, við spiluðum ágætlega í dag en við eigum alveg fullt inni og getum bætt okkur um heilan helling.
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Mynd: [email protected] – [email protected] – Pavel landaði þrennu í kvöld.



