Oscar Bellfield lék aðeins í tæpar sjö mínútur síðastliðið fimmtudagskvöld þegar Skallagrímur vann öruggan útisigur á Val í Domino´s deild karla. Oscar kom aðeins við sögu í fyrsta leikhluta en lék ekki meira í leiknum sökum tognunar í aftanverðu læri sem hann varð fyrir í leik gegn Þór Þorlákshöfn síðasta mánudag.
„Við tökum þetta bara einn leik í einu og sjáum hvernig þetta þróast,“ sagði Pálmi Þór Sævarsson þjálfari Skallagríms við Karfan.is í gær en þessa dagana standa Borgnesingar í stórræðum. Léku gegn Þór Þorlákshöfn á mánudag, gegn Val á fimmtudag og á morgun, sunnudag, eigast Skallagrímur og Þór Þorlákshöfn við að nýju og þá í 16-liða úrslitum Poweradebikarkeppninnar.
Aðspurður hvort Bellfield yrði með Skallagrím á morgun sagði Pálmi það verða að koma í ljós en að hann væri ekkert allt of bjartsýnn á það.



