Njarðvíkurstúlkur náðu í sinn þriðja sigur í deildinni í kvöld þegar Hamarstúlkur komu í heimsókn í Ljónagryfjunni. 63:60 var lokastaða kvöldsins eftir nokkuð spennandi loka mínútur í leiknum þar sem að Hamar virtust vera að innbyrða sigur en þá kom risa þristur frá Ernu Hákonardóttir. Það var svo Nikitta Gartrell sem setti niður víti á loka sekúndu leiksins en síðasta skot kvöldsins átti DiAmber Johnson sem hefði getað sett leikinn í framlengingu en skotið vildi ekki niður.
Það er óhætt að segja að umfhverfið er gjörbreytt hjá Njarðvíkurstúlkum með nýjum erlendum leikmanni þeirra, Nikitta Gartrell. Stúlkan er þó nokkuð öflugri en forveri hennar og gefur töluvert meira frá sér. Ekki skemma tölur eins og 29 stig og 16 fráköst. Hugsanlega mæddi aðeins of mikið á henni framan af leik og allt þor og frumkvæði vantaði í aðra leikmenn liðsins. En Ásdís Vala Freysdóttir tók af skarið í seinni hálfleik og setti niður mikilvæg stig. Akkúrat sem vantað hefur í þetta Njarðvíkurlið og þeirra vegna að vonandi fylgi aðrar stúlkur í kjölfarið.
Í fjarveru glímudrottningarinnar, Marín Laufey Davíðsdóttur sem fékk leyfi af persónulegum ástæðum í kvöld þurfti Fanney Lind Guðmundsdóttir heldur betur að spíta í lófana sem hún og gerði. Fanney fór hamförum í fyrri háleik og setti 15 stig. Í þeim seinni dró aðeins af henni en þó setti hún niður tröllvaxinn þrist á loka mínútu leiksins og hélt liði sínu inní leiknum. DiAmber Johnson var hinsvegar einnig gríðarlega sterk hjá þeim bláklæddu í kvöld og setti niður 21 stig ásamt því að senda 5 stoðsendingar.
Agnar Mar Gunnarsson var í kvöld að stýra sínum fyrsta leik sem þjálfari liðsins og hann ákvað að liðið skyldi hefja svæðisvörn undir lok þriðja leikhluta.Þessi taktík hans svínvirkaði því fram að því virtust Hamar vera að sigla í land með nokkuð þægilegan sigur en þær áttu í mesta basli þegar Njarðvík skelltu í svæðið sitt og þar komust heimastúlkur á bragðið og luku svo leik með mikilvægum sigri.
Njarðvíkurstúlkur eru því komnar með 6 stig í deildinni en verma hinsvegar enn botnsætið. Hamar sitja í 5.-7. sæti í einum hnapp með Grindavík og KR öll lið með 12 stig.



