spot_img
HomeFréttirBynum/Deng skiptin og áhrif þeirra

Bynum/Deng skiptin og áhrif þeirra

Um síðustu helgi var mikið talað um möguleg skipti Lakers og Cavaliers á Pau Gasol og Andrew Bynum en þær viðræður runnu í sandinn þegar Cavs vildu ekki láta frá sér Dion Waiters með í skiptunum. Í nótt hins vegar, öllum að óvörum, gengu Bulls og Cavs frá skiptum á Bynum og Luol Deng, sem er tvöfaldur stjörnuleikmaður og á sínu besta tímabili í deildinni. Hvað veldur?
 
Það var ekkert leyndarmál að Cavs vildu losna við Bynum eftir að þeir settu hann í bann vegna ósæmilegrar hegðunar eins og það var orðað. Bynum hefur ekki sýnt því áhuga að spila og vissu Cavs það fyrirfram að ekkert yrði öruggt með að fá hann í liðið. Samningur hans var aðeins tryggður hálfa leið eða aðeins $6 af $12 milljónum. Hann innihélt einnig ýmsa hvata í von um að hann fengist til að spila eftir bestu getu. Bynum hins vegar, eins og Philadelphia 76ers þekkja, olli vonbrigðum.
 
Bulls eru í eigu Jerry Reinsdorf sem er annálaður nískupúki og vill ekki eyða krónu í lúxusskatt, auk þess að kjarasamningur NBA deildarinnar er hannaður til að halda launakostnaði eigenda í lágmarki. Að því sögðu neyðast mörg lið til að henda frá sér leikmönnum til að laun þeirra festist ekki í lokatölu launakostnaðar sem fer svo í að reikna lúxusskattinn. 7. janúar var lokafresturinn til að ganga frá þessum málum áður en liðin læstust inni með sína samninga.
 
Bulls hafa ítrekað reynt að framlengja við Deng og buðu honum í síðustu viku þrjú ár og $30 milljónir sem hann hafnaði. Það reyndist síðasta hálmstráið og John Paxon og Gar Forman gengu í kjölfarið frá samkomulagi við Cavs.
 
Bulls leystu strax Bynum undan samningi og hafa þannig komið sér þægilega undir skattmörkin í launaþakinu þrátt fyrir að vera einum leikmanni frá því sem deildin setur sem skilyrði eða 13 leikmenn á skrá. Bulls hafa enn nægt rými til að bæta við einum “veteran” eða leikmann með að lágmarki fimm ára reynslu og halda sig enn undir mörkunum.
 
Cavs hins vegar eru í bölvuðum vandræðum og hafa valdið vonbrigðum í vetur. Áttu fyrsta valrétt síðasta sumar og eyddu honum í Anthony Bennett sem er svo slakur að hann hefur jafnvel látið Kwame Brown fölna í samanburði. Þolinmæðin er á þrotum þar á bæ og krafan um keppnishæft lið vex alltaf – sér í lagi ef þeir ætla að reyna að laða til sín LeBron James aftur. Cavs vonast til að þetta leggi jarðveginn að betri framtíð, þó hættan sé alltaf á því að Deng semji við annað lið í sumar.
 
Deng fer til Cleveland en samningurinn hans Bynum fer til Chicago ásamt valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins í sumar (sem kemur upprunalega frá Sacramento), réttur til að skipta valréttum við Cleveland á næsta ári ef Cavs lenda á milli sæta 15-30 í valinu, auk þess sem Bulls fá tvo valrétti í annari umferð 2015 og 2016 (sem koma upprunalega frá Portland).
 
Margir halda því fram að Bulls séu búnir að henda inn handklæðinu eftir að Derrick Rose meiddist aftur í vetur. Einnig hefur því verið haldið fram að borið hafi á ágreiningi milli þjálfara og framkvæmdastjórnar um áherslur og stefnu liðsins. Eigendur og stjórnendur vilji byggja upp aftur, þjálfarateymið vilji keyra áfram án þess að hika. Að senda frá sér Deng er óneitanlega merki um hið fyrra, sama hvað Tom Thibodeau hefur í huga. Uppgangur Jimmy Butler hefur gert minna úr mikilvægi meiðslapésans Luol Deng. Einnig er að mínu mati farið að bera á minni trú stjórnenda liðsins á að Derrick Rose komin nokkurn tímann aftur í sama formi, hvort sem andlega eða líkamlega, og áður en hann sleit krossbandið fyrir tveimur árum síðan.
 
Það var áramótatiltekt hjá fleirum en Bulls í gær. Clippers sendu frá sér Stephen Jackson og Lakers losuðu sig við Shawne Williams. Ryan Gomes (BOS), Mike Harris (UTA), Daniel Orton (PHI) og Cartier Martin (ATL) voru einnig sendir í burtu.
 
Orðrómur var um að LA Clippers hefðu áhuga á Bynum en hann var ekki á rökum reistur. Miami Heat hafa nú verið orðaðir við stóra barnið og þykir líklegt að þeir hirði hann upp í lok tímabils á 10 daga samningi til reynslu – líkt og þeir gerðu með Chris Andersen. Takist Heat að tjasla honum saman fyrir úrslitakeppnina og fá hann til að spila verða þeir illviðráðanlegir í vor. Bynum þyrstir hins vegar ekki í titil þar sem hann vann tvo með Lakers og alls óvíst að hann fáist til að spila – hvað þá á pari við það sem hann var vanur með Lakers.
Fréttir
- Auglýsing -