Íslands- og bikarmeistarar Keflavíkur gerðu góða ferð í Röstina í kvöld þegar Grindvíkingar voru lagðir að velli 67-81 í Domino´s deild kvenna. Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst Keflvíkinga með 24 stig en María Ben Erlingsdóttir gerði 19 stig í liði Grindavíkur.
Fyrsti leikhluti milli Grindavíkur og Keflavíkur lofaði góðu og skiptust liðin á körfum. Keflavíkurliðið mætti fullmannað meðan Grindavíkurliðið var ansi vængbrotið með aðeins 9 leikmenn á skýrslu, Pálína enn frá og systurnar Jan og Júlía Sicat veikar. Ingibjörg Jakobsdóttir fór fyrir Grindavíkurliðinu og skoraði 9 stig í leikhlutanum meðan stigaskorið dreifðist vel hjá Keflavíkurstúlkum. Staðan eftir 1. leikhluta var 20-18 fyrir heimastúlkur. Andy Johnston hefur rætt vel við sínar stúlkur milli fyrsta og annars leikhluta því Keflavíkurstelpur tóku öll völd á vellinum í 2. leikhluta. Mikil barátta í vörninni ásamt hugmyndasnauðum sóknarleik Grindavíkurstelpna skilaði Keflavík 13 stiga forustu í hálfleik, 28-41 og skoraði Grindavík því aðeins 8 stig í leikhlutanum. Í hálfleik var Sara Rún Hinriksdóttir stigahæst hjá Keflavík með 14 stig, Porsche Landry með 9 og Bryndís Guðmundsdóttir með 8 stig. Hjá Grindavík var Ingibjörg Jakobsdóttir stigahæst með 9 stig og Bianca Lutley og María Ben Erlingsdóttir með 6 stig.
Jafnræði var með liðunum í 3.leikhluta en í hvert sinn er Grindavík nálgaðist Keflavík þá settu þær nokkrar körfur til að auka muninn aftur. Eftir þriðja leikhluta var staðan 48-56 og Grindavík búið að minnka muninn lítillega en þó leit út fyrir að Keflavík væri með öll völd á vellinum. Fjórði leikhluti var svipaður þeim þriðja, Grindavík reyndi að minnka muninn en Keflavík átti svör við öllum þeirra tilraunum.
Keflavíkurliðið leit vel út með Söru Rún, 24 stig, og Landry fremstar í flokki, en Landry stjórnaði leiknum vel og endaði með tvöfalda tvennu, 11 stig og 12 stoðsendingar. Bryndís Guðmundsdóttir átti einnig góðan leik með 14 stig og 8 fráköst, Telma Lind Ásgeirsdóttir 12 stig og Bríet Sif Hinriksdóttir 11 stig.
Hjá Grindavík átti Ingibjörg Jakobsdóttir góðan leik með tvöfalda tvennu, 17 stig og 10 stoðsendingar en María Ben Erlingsdóttir var stigahæst með 19 stig en þó leit út fyrir að hún ætti meira inni. Helga Rut Hallgrímsdóttir barðist af miklum krafti og var með 8 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar og síðan verður að hrósa Katrínu Ösp Eyberg sem spilaði mun stærra hlutverk í dag en venjulega þar sem Grindavíkurliðið var mjög fámennt og stóð hún sig vel. Nýji erlendi leikmaður Grindavíkur var með 12 stig og 12 fráköst en þó verður að segja eins og er að það leit ekki út fyrir að hún væri að leggja sig alla fram í leiknum.
Umfjöllun/ BG
Mynd úr safni/ [email protected] – Telma Lind Ásgeirsdóttir gerði 12 stig í liði Keflavíkur í kvöld.



