spot_img
HomeFréttirÖrvar: Sigur liðsheildar

Örvar: Sigur liðsheildar

ÍR gerði góða ferð í Fjósið í Borgarnesi í kvöld með 86-93 sigri á Skallagrím í Domino´s deild karla. Örvar Þór Kristjánsson var ánægður með sigurinn sem hann kallaði sigur liðsheildar. ÍR er nú í 10. sæti deildarinnar með 6 stig rétt eins og KFÍ sem erí 9. sæti en hefur betur innbyrðis gegn Breiðhyltingum. Grétar Ingi Erlendsson lék ekki með Skallagrím í kvöld sökum meiðsla en þeirra nýjasti liðsmaður, Benjamin Curtis Smith fór mikinn í leiknum með 40 stig.
 
 
„Þetta var hörku flottur körfuboltaleikur og mikið í húfi hjá báðum liðum. Mér fannst við eiga þetta skilið, vorum 12 stigum yfir í fjórða leikhluta þegar fjórar mínútur voru eftir og héldum þetta út. Framundan er gríðarleg barátta og ég horfi bara þannig á málin að nú erum við nær úrslitakeppninni en áður,“ sagði Örvar sem telfdi fram Nigel Moore í kvöld og kvaðst ánægður með kappa.
 
„Hann var frábær fyrir okkur, rétt eins og Ben Smith fyrir Skallagrím. Nigel leysir mikið fyrir okkur og gefur strákunum mikið sjálfstraust. Hann hugsar um hag liðsins og átti frábæran leik en þetta var sigur liðsheildarinnar í kvöld og ég fékk framlag úr öllum áttum.“
 
Þó Borgnesingar séu nú í fallsæti telur Örvar að þeirra bíði betri tíð: „Ég hef fulla trú á því að Skallagrímur vinni slatta af leikjum þegar Grétar kemur inn. Smith er mjög góður en hann var með einhver 46 framlagsstig í kvöld og brenndi varla af skoti. Það skildi þó liðin að í kvöld var að við náðum góðum áhlaupum, stóru skotin okkar vildu niður í lokin,“ sagði Örvar sem í kvöld gat ekki telft fram hinum stóra og stæðilega miðherja Þorgrími Kára Emilssyni vegna meiðsla. Um tvær til þrjár vikur eru þangað til Þorgrímur Kári verður leikfær að nýju.
 
„Annars var flott að hefja árið á sigri, þetta vær kærkominn sigur eftir eins stigs tap í síðasta leik fyrir jól,“ sagði Örvar að lokum.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -