Keflvíkingar tóku á móti Stjörnumönnum úr Garðabæ í TM höllinni við Sunnubraut í kvöld í 12. umferð Dominos deildar karla. Hlutskipti liðanna er ólíkt nú þegar mót er hálfnað þar sem Keflvíkingar sitja í 2. sæti með 20 stig af 22 mögulegum á meðan Garðbæingar eru í miðjumoði þriggja liða með 12 stig í 6. sæti. Þegar liðin mættust í fyrstu umferð Íslandsmótsins í Garðabæ var um einstefnu af hálfu Keflvíkinga að ræða og því ærið verkefni sem beið Teits Örlygssonar og lærisveina hans.
1. leikhluti fór nokkuð jafnt af stað. Liðin voru ekki að skora mikið og eftir um 7 mínútna leik var staðan 11-11 og mikið um misheppnaðar sóknir á báðum endum vallarins. Michael Craion bauð uppá yndæl block partý á upphafsmínútunum, enda ekkert grín að sveigja knöttinn yfir vænghafið á þeim mæta manni.
Þröstur Leó Jóhannsson bauð uppá kómík leiksins þegar átti að skipta honum inná um miðbik leikhlutans. Þegar téður Þröstur fór úr upphitunarbol sínum áttaði hann sig á því að hann gafði gleymt að fara í keppnisbúninginn innan undir og fór hann skælbrosandi á harðahlaupum á eftir honum til búninsherbergja. Hann lét það þó ekki á sig fá og smellti niður þristi um leið og hann steig á völlinn nánast og kom Keflvíkingum í 23-15 en Jón Sverrison svaraði um hæl og lokaði leikhlutanum í 23-18, heimamönnum í vil.
Junior Hairston fór mikinn á upphafsmínútum 2. leikhluta og átti full kurteisa troðslu eftir góða sendingu frá Degi Kár og þrist úr horni í næstu sókn. Hann lokaði svo þessu innslagi með því að blokka Darrell Lewis aftur til ársins 2013 með viðeigandi öskri. Keflvíkingar voru að finna glufur á vörn Stjörnunnar en gekk þó illa að fullnýta þau fjölmörgu færi sem buðust. Darrel Lewis og Gunnar Ólafsson héldu Keflvíkingum hársbreidd á undan gestunum eftir viðstöðulaust lay-up hjá þeim síðarnefnda eftir frábæra sendingu frá Vali Orra sem hafði verið óheppinn upp við körfu andstæðinga sinna fram að þessu.
Guðmundur Jónsson byrjaði leikinn fyrir Keflvíkinga en sat mest allan 1. leikhluta og hálfan 2. leikhluta. Hann setti niður góðan þrist úr hraðaupphlaupi til að koma heimamönnum yfir 36-33 eftir sendingu frá Gunnari og festi svo kaup á miða á vítalínuna eftir að brotið var á honum í öðru þriggja stiga skoti. Nýtti hann 2 af 3 skotum sínum og Keflvíkingar náðu stærsta forskoti sínu í leiknum til þessa, þó ekki nema 6 stig. Stjörnumenn áttu lokaorð fyrri hálfleiks og staðan 39-36 fyrir Keflavík.
Atkvæðamestir í liði heimamanna voru þeir Gunnar Ólafsson (12 stig), Darrel Lewis (9 stig, 3 fráköst) og Guðmundur Jónsson (7 stig, 4 fráköst). Hjá Stjörnunni voru það Junior Hairston (9 stig, 4 stoðsendinngar) og Daur Kár (7 stig, 3 fráköst, 4 stoðsendingar) sem voru að láta mest að sér kveða.
Seinni hálfleikur byrjaði með látum en þó ekki á þann hátt sem körfuboltaunnendur sjá fyrir sér því það voru starfsmenn vallarins sem sáu um “showið” í upphafi 3. leikhluta þegar skotklukkan á annarri körfunni bilaði í ca 10 mínútur en var það mál leyst af mikilli fagmennsku eins og oft vill gerast í Keflavík.
Keflvíkingar settu fyrstu stig leikhlutans en Dagur Kár opnaði seinni hálfleikinn fyrir Stjörnuna með þrist og Hairston fékk svo galopið skot í horninu í næstu sókn og staðan 44-43 fyrir Keflvíkinga. Michael Craion hafði verið mjög rólegur sóknarlega fyrir heimamenn og í erfiðleikum með að finna körfuna með Hairston límdan á sig. Darrel Lewis hefur hins vegar strengt nýársheit þess efnis að spila betur en í síðustu leikjum síðasta árs og fór hann hamförum í skotum sínum um miðbik leikhlutans. Mikið jafnræði var með liðunum og aukin barátta færðist í leikinn eftir því sem leið á leikhlutann og um leið jókst hraðinn og skemmtanagildi leiksins.
Marvin Valdimarsson átti frábæran kafla undir lok 3. leikhluta þegar hann náði sóknarfrákasti af harðfylgi og skilaði 2 stigum. Í næstu sókn lék hann vörn Keflvíkinga grátt og kláraði gríðarlega erfitt færi, fékk vítaskot að auki sem hann nýtti og lyfti stemmningunni í Stjörnuliðinu upp í leiðinni.
Hairston átti stórleik í leikhlutanaum með 12 stig og kominn í 21 stig en var farinn að þreytast og tók Teitur uppá því að hvíla hann í byrjun 4. leikhluta, enda búinn að spila í tæpar 29 mínútur af 30 í baráttu við Craion í teignum.
Það var alveg ljóst að sigurliðið þyrfti að hafa fyrir stigunum þegar 4. leikhluti hófst. Hnífjafnt á öllum tölum og spennan í húsinu að magnast. Heimamenn voru komnir í sitt kunnuglega 2-3 svæði en Stjörnumenn létu það ekki slá sig útaf laginu og notuðu hvert tækifæri til að leysa það upp með gegnumbrotum sem skiluðu stigum undir körfunni. Valur Orri vaknaði til lífsins og setti 5 stig í röð áður en Darel Lewis bætti við 2 og kom Keflvíkingum í 73-70 og 6 mínútur eftir. Keflvíkingar herrtu á vörninni og skiluðu næstu 6 stigum og munurinn skyndilega orðinn 9 stig og aldrei verið meiri í leiknum. Stjarnarn leggur þó ekki árar í bátinn fræga svo glatt og Hairston, Jón Sverrisson og Marvin Valdimarsson löguðu saman stöðuna í 80-78 þegar 1:48 lifðu leiks og Andy Johnston tók leikhlé fyrir heimamenn. Valur misnotaði 2 víti og Justin Shouse hamraði niður 3ja stiga körfu í næstu sókn eftir frábært flæði á móti svæðinu og Stjörnumenn komnir yfir 80-81! Ótrúleg sveifla á skömmum tíma en þar með var gamanið rétt að byrja. Guðmundur Jónsson fékk boltann strax í næstu sókn setti 3ja stögu körfu og Keflvíkingar aftur yfir með 2 stigum og allt varð vitlaust í stúkunni. Keflvíkingar voru varla b únir að sjá á eftir boltanum ofan í körfuna þegar Stjörnumenn geystust í sókn og Dagur Kár gerði sér lítið fyrir og setti enn einn þristinn og Stjörnumenn aftur með yfirhöndina 82-83 og 40 sekúndur eftir.
Valur Orri tók af skarið fyrir Keflvíkinga og með nægan tíma eftir á skotklukkunni misnotaði hann skot sitt frekar illa og upphófst villuuppsöfnun Keflvíkinga til að koma Stjörnumönnum á vítalínunalínuna. Stjörnumenn nýttu bæði sín víti og munurinn 3 stig.
Keflvíkingar léku upp völlinn í von um að jafna leikinn með þrist og viti menn, þeir fundu einn slíkan frá Guðmundi Jónssyni sem kveikti í netinu og í öllu húsinu um leið og skildu heimamenn eftir 7 sekúndur á klukkunni sem að Stjörnumenn nýttu ekki þrátt fyrir mikinn darraðadans undir körfu heimamanna. Framlenging staðreynd. 85-85.
Marvin Valdimarsson fékk að líta sína fimmtu villu strax í byrjun framlengingar eftir klaufalegt brot og Keflvíkingar tóku yfirhöndina af vítalínunni. Dagur Kár, sem hafði spilað eins og sá sem valdið hefur allan leikinn, hélt áfram að draga vagninn fyrir gestina með frumkvæði sínu og jafnaði hann leikinn í 88-88 af vítalínunni hinum megin. Á meðan var Craion ennþá ískaldur fyrir Keflvíkinga sem að hættu þó aldrei að dæla boltanum á hann. Guðmundur Jónsson hélt áfram að skjóta og kom heimamönnum í 90-88 en Hairston jafnaði um hæl. Darrel Lewis setti risastóran þrist í næstu sókn og allt við suðumark á Sunnubrautinni. 1 víti af 2 frá Keflvíkingum setti muninn í 4 stig með mínútu eftir en títt nefndur Junior Hairston minnkaði muninn með 3ja stiga körfu í 1 stig. Stjörnumenn ná boltanum í næstu sókn en misnota skotið. Jón Sverrisson, sem skilaði mjög góðri baráttu i kvöld, náði þó að blaka boltanum úr höndum Darrel Lewis og Stjörnumenn fengu annað tækifæri. Ekki náðist að nýta það og Keflvíkingar voru sendir á vítalínuna hinum megin. Lewis nýtti bæði vítin og Stjörnumenn héldu í lokasókn framlengingar í stöðunni 96-93. Hairston náði ágætis skoti sem geigaði en Sigurður Dagur Sturluson náði frákastinu og tókst að koma upp skoti sem geigaði illa og dramatískur sigur heimamanna staðreynd.
Atkvæðamestir í liði heimamanna voru þeir Guðmundur Jónsson, Darrel Lewis og Gunnar Ólafsson en hægt er að tala um góða spretti hjá mun fleirum. Arnar Freyr (10 stoðsendingar), Þr?stur og Valur áttu góða kafla og þrátt fyrir að Michael Craion hafi ekki skinið mj?g skært sóknarlega var hann mj?g aktívur í frákastabaráttunni og varði 4 bolta.
Hjá Stj?rnunni var Hairston yfirburðarmaður á vellinum en auk hans spiluðu þeir Dagur Kár og Jón Sverrisson mj?g vel og greinilegt að sá síðarnefndi mun koma til með að hjálpa Stj?rnunni mikið nú þegar hann er stiginn uppúr hnémeiðslum. Marvin skilaði einnig fínum leik og þá má nefna góða baráttu Fannars Helgasonar og Justin Shouse.
Umfj?llun: Sigurður Friðrik Gunnarsson



