Keflavík og Valur mættust í Domniosdeild kvenna í kvöld í TM höll þeirra Keflvíkinga. Leikurinn var í heild sinni nokkuð jafn og til marks um það þá skiptust liðin á forystu 12 sinnum. Á lokakaflanum voru það Keflvíkurstúlkur sem voru einbeittari og lönduðu mikilvægum sigri og halda pressu á Haukum og Snæfell í baráttunni um toppsæti deildarinnar.
Valur hóf leikinn að meiri krafti og leiddu eftir 10 mínútur með þremur stigum eða 22:25. Þriðji leikhluti var svo eign Keflavíkur þar sem þær voru að spila vel og þá sérstaklega varnarlega og Valskonur náðu aðeins að setja 14 stig í leikhlutanum. Keflavík leiddi í hálfleik með þremur stigum og allt stefndi í hörku leik. Leikurinn hélst nokkuð jafn allan þriðja leikhluta en á loka kaflanum tóku Valskonur völdin á vellinum og voru komnar í ansi fína stöðu fyrir síðasta leikhlutann. Með 8 stiga forskot héldu ræð rauðklæddu í siðasta fjórðung leiksins og það var ekki fyrr en að 5 mínútur voru til loka leiks að Keflavíkurstúlkur jafna leikinn 72:72 og fram fóru ansi spennandi mínútur. Liðin skiptust á því að skora og þetta stefndi nánast bara í það hvort liðið myndi ná síðustu sókn leiksins.
Svo fór að það var Sandra Lind Þrastardóttir setti niður 4 af 5 síðustu stigum Keflavíkur á loka mínútunni og tryggði liði sínu sigurinn. Sandra átt í kvöld flottan leik fyrir Keflavík 11 stig og 6 fráköst og sem fyrr segir setti Sandra mikilvægustu stig kvöldsins. Porsche Landry var atkvæðamest hjá Keflavík með 29 stig og næst henni var Bryndís Guðmundsdóttir með 20 stig og 6 fráköst.
Hjá Val var Anna Martin allt í öllu og dró vagnin með 36 stig, Aðrir leikmenn voru langt frá sínu besta og ef í það er horft geta Valsstúlkur kannski huggað sig við það að tapa aðeins með 2 stigum í TM Höllinni.



