Grindvíkingar tóku á móti Haukum í 13. umferð Domions deildar karla í kvöld og urðu lokatölur 91-60 fyrir Grindavík en staðan í hálfleik var 49-27.
Eflaust áttu stuðningsmenn Grindavíkur og Hauka von á og vonuðust eftir hörkuleik í kvöld þar sem mikilvægir leikir eru framundan hjá báðum liðum í 8-liða úrslitum bikarsins. Um leið og fyrsta skrefið var stigið inn í Röstina varð ljóst að þeim yrði ekki að ósk sinni því Haukarnir mættu með vægast sagt vængbrotið lið og vantaði m.a. Terrence Watson og Emil Baraja. ÖLL lið myndi muna um svo góða leikmenn og varð því þessi fyrirfram hörkuleikur að hinum leiðigjarna leik kattarins að músinni.
Það þarf svo sem ekkert að hafa mörg orð um þetta. Grindavík einfaldlega valtaði yfir þá rauðklæddu strax frá 1. mínútu og var frá upphafi aðeins spurning um eitt atriði; hversu stór sigurinn yrði. Munurinn í lokin varð „bara“ 31 stig og nokkuð ljóst að ef heimamenn hefðu leikið af 50% krafti hið minnsta að þá hefði sigurinn getað orðið talsvert stærri.
Varla hægt að taka neina menn út úr svona leik eins og í kvöld. Allir fengu að spila hjá heimamönnum og gerði síðasta trompið af bekknum, hinn ungi og efnilegi Magnús Már Ellertsson 3 heiðarlegar tilraunir á lokamínútunum til að koma sér í hóp hinna í stigaskoruninni en varð ekki kápan úr því klæðinu. Áður hafði annar ungur og upprennandi Grindvíkingur, Nökkvi Harðarson smeygt sér fimlega í gegnum vörnina og komið sér á stigaskorunarblaðið.
Veit ekki hvað skal segja um blessaða Haukana. Þeir voru dauðadæmdir frá upphafi en hefðu kannski getað reynt að berjast eitthvað meira, ég skal ekki segja. Vonandi fá þeir sína lykilmenn vel fríska til baka úr veikindunum en á góðum degi geta Haukarnir unnið öll lið í deildinni og ljóst að það verður hörkurimma ef þeir mæta heilir á móti Þór Þorlákshöfn í bikarnum á mánudagskvöld en fróðir menn muna kannski að þeir völtuðu yfir Bónusvíkinginn og lærisveina hans úr Þorlákshöfn í deildinni stuttu fyrir jól.
Umfjöllun/ SDD



