Það verða Grindvíkingar sem koma til með að halda ferð sinni áfram í bikarkeppninni þetta árið en Njarðvíkingar hafa lokið keppni eftir að liðin háðu rimmu sína í kvöld í Röstinni fyrir fullu húsi. Sigurinn að þessu sinni vannst með minnstu mögulegum mun, 78:77 eftir að þeir grænklæddu höfðu leitt leikinn í hálfleik með 4 stigum.
Gríðarlega spenna og stemmning hafði myndast fyrir leikinn og ljóst var að þessi rimma yrði gríðarlega spennandi. Liðin jöfn að stigum í deildinni og í leik liðanna í deildinni voru það Grindvíkingar sem tóku nauman sigur eftir að Njarðvíkingar höfðu verið yfir nánast 80% leiksins. Mikið var rætt um hvernig Tracy Smith sem byrjað hefur vel með Njarðvíkingum myndi koma út úr rimmu sinni gegn Sigurði Þorsteinssyni sem hefur verið að spila gríðarlega vel uppá síðkastið. Jafnvel talað um að leikurinn stæði og félli eftir niðurstöðu milli þeirra tveggja. Báðir léku þeir vel fyrir sín lið og skoruðu yfir 20 stigin en það sem báðum vantaði uppá var varnarleikurinn og þá sérstaklega Tracy Smith sem á tímum virðist hreinlega latur varnarmegin eins og hann er flinkur sóknarmaður.
En undirritaður spáði því að leikurinn myndi ráðast á bakvarðapörum kvöldsins og það reyndist að lokum vera rétt. Eftir tvo fjórðunga voru það Njarðvíkingar sem leiddu í leiknum en þá tók Lewis Clinch hjá Grindvíkingum leik sinna manna á sínar herðar og skoraði 9 stig í röð. Á þessum kafla komast Grindvíkingar í 10 stiga forystu og stemmningin öll þeirra megin í húsinu. Þessi kafli var líkt og rothögg á þá Njarðvíkinga sem virtust að einhverju leiti vera í þokkalegum gír þó þeir hafi ekkert verið að spila eins vel og þeir geta. Það tók þá heilar 10 mínútur að komast á lappir eftir þetta en en fá hálft prik fyrir það jú að koma sér aftur í leikinn.
En þrátt fyrir að Njarðvíkingar hafi fengið ítrekaðar tilraunir til að komast aftur í forystu þá var sóknarleikur þeirra á lokakafla leiksins var afar hugmyndasnauður og auðveldur viðureignar fyrir varnarmenn Grindavíkur. Ákvarðanatökur og skotval þeirra urðu þess valdandi að Grindvíkingar náðu að halda fengnum hlut og sigruðu að lokum.
Hjá Njarðvíkingum var það bakvarðasveit þeirra sem brást þetta kvöldið. Lykilleikmenn á ögur stundu brenndu af rándýrum vítaskotum, leikmenn sem að öllu jöfnu setja víti sín niður. Elvar Már Friðriksson einn besti leikmaður landsins ef ekki sá besti var langt frá sínu besta í kvöld. Elvar hefði hugsanlega átt að spila félaga sína betur uppi í stað þess að vera að þröngva erfiðum færum verandi leikstjórnandi liðsins. En því má ekki gleyma að Elvar er en ungur og þetta fer inná reikning í bankanum fræga.
Hjá Grindavík var Lewis Clinch maðurinn á bakvið sigur þeirra. Frammistaða hans í þriðja leikhluta stendur uppúr þetta kvöldið og óhætt að segja að þar hafi leikurinn unnist hjá þeim gulklæddu. Sigurður Þorsteinsson spilaði einnig prýðis leik en kappinn virðist vera í feiknar formi.



