Arnar Guðjónsson og Hrannar Hólm urðu danskir bikarmeistarar með liðum sínum um helgina en Arnar er aðstoðarþjálfari hjá karlaliði Svendborg Rabbits sem bauð upp á magnaðan viðsnúning í leiknum og fögnuðu að lokum titli. Hrannar Hólm stýrir kvennaliði SISU og gerði það örugglega og til sigurs í bikarnum gegn Hörsholm 79ers.
Arnar og Svendborg kanínurnar komu til baka eftir að hafa verið 30-53 undir í hálfleik og kláruðu verkið 87-84. Hér að neðan má sjá um fimm mínútna langt myndband með helstu tilþrifum leiksins.
Hrannar og SISU voru sem fyrr ekkert nema öryggið uppmálað með 79-59 sigri þar sem Kiki Lund var stigahæst með 19 stig. Svipmyndir úr leiknum má sjá hér að neðan.



