„Þetta er eins og að vera alltaf rosalega orkulítill,“ sagði Finnur Atli Magnússon leikmaður Snæfells í samtali við Karfan.is. Hólmarar hafa glímt við meiðsla- og fjarverudrauginn þessa vertíðina. Ekki er langt síðan við greindum frá því að skórnir hjá Hafþóri Inga Gunnarssyni væru á leið upp á hilluna frægu. Finnur Atli Magnússon hefur lítið getað beitt sér með Snæfell þetta tímabilið sökum blóðleysis. Karfan.is náði tali af Finni í dag sem býst við því að vera í búning gegn KR í næsta leik en það verður sem fyrr lítið sem hann mun geta beitt sér.
„Ég helt að þetta tengdist því að ég hafi fengið í bakið í sumar og á köflum hélt ég hreinlega að ég væri ekki í neinu formi. Aukaæfingar og fleira gerðu mig bara þreyttan og maður var alveg búinn eftir einhverjar þrjár mínútur á hlaupabretti og grunaði þá sterklega að það væri eitthvað meira að,“ sagði Finnur og bætti við að læknir hans í dag ætti jafnvel erfitt með að skilja hvernig hann hafi þó getað skilað af sér 12-13 mínútum í leik fyrir áramót með Snæfell í þessu ástandi.
„Mér skilst að venjulega séu einingar í blóði fólks um 120 en ég var í 63 en nú undanfarið hef ég verið að fá járn í æð tvisvar sinnum í viku og læknirinn minn skilur vart hvernig ég náði orku í að hlaupa næstum korter í leik. Annars þarf ég núna að spila þetta bara eftir eyranu, ég var á æfingu á laugardag sem var hörku æfing, mikið hlaupið og ég náði alveg að klára þó ég hafi verið orkulítill undir lokin,“ sagði Finnur sem fór í blóðprufu í dag.
„Já ég fór í blóðprufu til að taka svona stöðuna á þessari meðferð, það er talið að lítið gat eða rifa sé einhverstaðar inni í mér sem veldur blóðleysinu. Ég hef alltaf borðað vel og nærst rétt en þegar ég fór í baki var ég settur á Voltaren-kúr sem var mögulega of langur. Þar er algengur hliðarkvilli að litlar rifur geti myndast á maga, eða svo skilst mér. Ég fer í speglun í næstu viku og þá fáum við úr því skorið hvað veldur þessu blóðleysi,“ sagði Finnur og kvaðst lítt spenntur fyrir magaspegluninni.
„Þeir gera bestu súpurnar í Stykkishólmi en súpa fjórum sinnum á dag í tvo daga fyrir speglunina er ekkert voðalega spennandi,“ sagði Finnur sem verður í búning gegn uppeldisfélagi sínu KR í næsta leik er KR mætir Snæfell í DHL Höllinni.
„Efast um að ég spili mikið í leiknum, mögulega ef Nonni Mæju heldur áfram að koma sér í villuvandræði,“ sagði Finnur á léttu nótunum en gerðist þó ögn alvarlegri. „Ef ég fer inná er það til að gefa honum, Sigga og Stefáni smá rúm til að pústa en vissulega langar mann helst til að spila ekki minna en 39 mínútur í svona leik.“
Mynd/ Eyþór Benediktsson – Kunnugleg sjón, landsliðsmaðurinn Finnur Atli á varamannabekknum en í þessum leik gegn Skallagrím lék hann í rétt rúmar tvær mínútur. Hólmarar myndu eflaust fegnir fá hann í 100% form um þessar mundir enda stórleikur gegn KR handan við hornið.



