Íslenskir leikmenn erlendis voru önnum kafnir þessa helgina. Hér að neðan skautum við yfir það helsta sem á daga þeirra dreif þessa helgina. Ægir Steinarsson er enn fjarverandi í liði Sundsvall sökum meiðsla og eins og við höfum áður greint frá þá er leiktíðin á enda hjá Kristófer Acox með bandaríska háskólaliðinu Furman.
Labor Kutxa 92-83 CAI Zaragoza
Jón Arnór Stefánsson lék í fimm mínútur í leiknum og náði ekki að skora en gaf eina stoðsendingu. Hann er að smokra sér í fleiri mínútur enda ekki langt síðan hann fór í aðgerð vegna meiðsla.
Valladolid 83-107 Fuenlabrada
Hörður Axel Vilhjálmsson gerði 5 stig í leiknum á rúmum 15 mínútum en enn eina ferðina má Valladolid þola stóran ósigur og situr sem fastast á botni ACB deildarinnar. Hörður var einnig með 4 stoðsendingar í leiknum og eitt frákast.
Rucon 63-94 Miskolc
Helena Sverrisdóttir var stigahæst í liði Miskolc með 21 stig og 7 fráköst í öruggum sigri gegn Rucon í Middle European deildinni. Miskolc er í 7. sæti deildarinnar með 8 sigra og 10 tapleiki.
Coruna 88-83 Breogan
Breogan féllu niður í 5. sæti LEB Gold deildarinnar á Spáni um helgina eftir 88-83 ósigur gegn Coruna þar sem framlengja varð viðureign liðanna. Haukur Helgi Pálsson gerði 3 stig í leiknum á 25 mínútum en var einni með 5 fráköst og einn stolinn bolta.
Sundsvall 69-67 LF Basket
Liðin áttust við síðastliðið föstudagskvöld í sænsku úrvalsdeildinni þar sem Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur í liði Sundsvall með 18 stig og 8 fráköst. Jakob Örn Sigurðarson bætti við 8 stigum og 7 fráköstum. Sundsvall er komið upp í 3. sæti deildarinnar með 24 stig en Boras er enn á toppnum með 42 stig og hefur ekki tapað leik! Tom Lidén var hetja Sundsvall í leiknum er hann stal boltanum og skoraði úr hraðaupphlaupi um leið og leiktíminn rann út.
Gran Canaria 83-67 Albacete
Arnþór var ekki í byrjunarliðinu í þessum leik en gerði 2 stig á tæpum 20 mínútum. Arnþór var einnig með 2 fráköst og eina stoðsendingu. Albacete er í 3. sæti EBA deildarinnar á Spáni með 10 sigra og 5 tapleiki.
Coker 56-74 Carson-Newman
Heiðrún Kristmundsdóttir lék í 30 mínútur í leiknum komandi af bekknum og gerði 2 stig, tók 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Þetta var annar ósigur Coker háskólans í röð sem hóf reyndar nýja árið á þremur sigrum í röð.
Mount Saint Vincent 95-76 Mount Allison
Sigtryggur Arnar Björnsson gerði 9 stig fyrir Mount Saint Vincent um helgina í kanadísku háskólakörfunni. Sigurinn var sá sjötti í röðinni hjá Mount Saint Vincent og er Sigtryggur Arnar með 16,75 stig að meðaltali í leik.
Mynd/ Haukur Helgi og Breogan lágu eftir framlengdan leik í LEB Gold deildinni.



