spot_img
HomeFréttirKeflavíkurstúlkur á rúntinum

Keflavíkurstúlkur á rúntinum

 Keflvíkingar tóku á móti grönnum sínum úr Njarðvík í 8 liða úrslitum bikarkeppni kvenna í kvöld. Það mátti enn greina þorralykt í lofti í TM höllinni frá því á laugardaginn en heimamenn héldu sitt árlega þorrablót með miklum stæl síðastliðna helgi. Ekki var áhorfendum þó boðið að gæða sér á súrmetis-afgöngum og tilheyrandi, heldur voru bornir fram grillborgarar fyrir leik eins og farið er að tíðkast á öllum betri kappleikjum. Eitthvað virðist rafmagnsreikningurinn þó hafa farið fram úr kostnaðaráætlun því annars gestrisnir Keflvíkingar skáru niður um tónlist milli leikhluta og í hálfleik, sem þykir miður þar sem oftar en ekki myndast and-klímatísk stemmning við slíkar aðstæður.
 
 Það var verið að spila uppá sæti í undanúrslitum og ljóst að bæði lið myndu selja sig dýrt. Jafnræði var með liðunum allan leikhlutann en Njarðvíkingar voru skrefinu framar fyrstu 8 mínúturnar og leystu upp vörn heimastúlkna með góðu spili. Skilaði það þeim 10-15 forystu. Keflvíkingar skelltu þá í 2-3 svæði að hætti hússins og skoruðu næstu 11 stig og lauk leikhlutanum í stöðunni 21-15. Bryndís Guðmundsdóttir og Sara Hinriksdóttir áttu mjög flotta spretti á þessum kafla. Njarðvíkingar voru að fá opin skot í byrjun sem að fór fækkandi en Guðlaug Júlíusdóttir og Nikitta Cartrell voru að spila vel fyrir Njarðvík.
 
Það færðist eilítið meira líf í leik Njarðvíkinga í öðrum leikhluta en Keflvíkingar héldu þó alltaf bilinu í hæfilegri fjarlægð. Njarðvíkingum tókst illa til að leysa svæðisvörnina og voru sjálfum sér verstar oftar en ekki. Þær Bryndís, Sara og Sandra voru grimmar í fráköstunum og gáfu heimastúlkum færi á 2 sóknum oft á tíðum. Keflvíkingar luku öðrum leikhluta á sama hátt og þeim fyrsta, með áhlaupi og var munurinn kominn í 9 stig þegar flautað var til hálfleiks, 40-31. Ásdís Vala Freysdóttir átti flotta spretti og var hvað best Njarðvíkurkvenna í hálfleiknum (10 stig, 6 fráköst) og þá var Nikitta Cartrell að hitta vel fyrir utan bogann (12 stig, 4/6 í þriggja )en var þó með 0/7 í 2ja stiga skotum í hálfleiknum sem þykir ekkert sérstakt. Aðrir leikmenn buðu uppá minna. Hjá heimastúlkum var Bryndís Guðmundsdóttir að spila mjög vel (14 stig, 3 fráköst) og þá var Sara Rún búin að smala í 10 stig og Porsche Landry 7.
 
Sandra Lind Þrastardóttir heillaði uppúr skónum í byrjun seinni hálfleiks með hörku baráttu og ósérhlífni. Stelpan fór hamförum í sóknarfráköstum, í svæðisvörninni, dýfði sér á eftir boltum, kláraði færi og kveikti neista í Keflavíkurliðinu sem að smitaði alla leið upp í stúku. Liðsfélagarnir fylgdu fordæmi hennar og skyndilega var munurinn orðinn 16 stig, 51-35 og vígtennur Njarðvíkurmeyja ekki ýkja hvassar þessar mínútur. Þær skorti hugrekki til að virkilega reka hnefann í síðu Keflvíkinga sem gengu á lagið og nýttu sér varfærnislega sóknartilburði þeirra grænklæddu til hins ýtrasta og sáust nær eingöngu hraðaupphlaup frá Keflvíkingum í þessum leik, sem getur aldrei þótt vænlegt til árangurs. Keflvíkingar fóru þó oft illa með auðveld færi og hefðu hæglega getað leitt með stærri mun þegar flautað var til loka þriðja leikhluta. Þær höfðu þó komið sér nokkuð þægilega fyrir og sáu til þess Njarðvíkingar sáu varla glitta í sólarglætu fyrir síðasta fjórðung. Staðan 58-40 og nokkuð ljóst að Njarðvíkingar myndu ekki eiga fulltrúa í undanúrslitum í bikarkeppninni þetta árið.
 
Lokaleikhlutinn var eingöngu formsatriði fyrir Keflvíkinga að klára. Njarðvíkurstúlkur bitu aldrei frá sér og vantaði hungur. Keimlíkt þema og þessi tvö lið hafa boðið uppá í vetur. Það má þó ekki taka það af Njarðvíkingum að í þeirra liði eru margar flottar stúlkur sem geta vaxið mikið sem leikmenn. Þjálfarar beggja liða leyfðu minni spámönnum að spreyta sig drjúgan hluta af leikhlutanum og tæmdust báðir varamannabekkir inná í rúmar 4 mínútur eða svo.
 
Keflvíkingar gerðu það sem þær þurftu til að landa sigri í kvöld. Þær hættu aldrei að berjast fyrir hver aðra og vörnin skóp að lokum liðssigur sem að aldrei var í hættu, að undanskildum fyrstu 7 mínútum leiksins en fáséð þykir að lið tryggi sigur á þeim tíma.
 
Hjá Keflvíkingum var Bryndís Guðmundsdóttir að daðra við þrennuna í tæknilegri merkingu ef svo má segja (22 stig, 9 fráköst og 9 fiskaðar villur), Porsche Landry var setti 18 stig og tók 6 fráköst, Sara Rún 17 stig og 8 fráköst. Þá er vert að minnast aftur á frammistöðu Söndru Þrastardóttur sem skoraði 2 stig og tók 14 fráköst og var að öðrum ólöstuðum maður vallarins að mati undirritaðs.
 
Hjá Njarðvík var það Nikitta Gartrell sem mætti til leiks með 17 stig og tók 18 fráköst en fékk littla hjálp frá liðsfélögum sínum og mátti sín lítils þegar upp var staðið gegn þéttum varnarleik Keflvíkinga. Ásdís Vala (10 stig), Sara Dögg Margeirsdóttir (7 stig) og Heiða Valdimarsdóttir komu henni næst.
 
 
Keflavík-Njarðvík 77-58 (21-15, 19-16, 18-9, 19-18)
 
Keflavík: Bryndís Guðmundsdóttir 22/9 fráköst, Porsche Landry 18/6 fráköst/5 stolnir, Sara Rún Hinriksdóttir 17/8 fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir 5/4 fráköst, Aníta Eva Viðarsdóttir 5, Telma Lind Ásgeirsdóttir 4, Sandra Lind Þrastardóttir 2/14 fráköst, Kristrún Björgvinsdóttir 2, Elfa Falsdottir 1, Thelma Dís Ágústsdóttir 1, Katrín Fríða Jóhannsdóttir 0, Lovísa Falsdóttir 0/4 fráköst.
Njarðvík: Nikitta Gartrell 17/18 fráköst, Ásdís Vala Freysdóttir 10/8 fráköst, Heiða B. Valdimarsdóttir 7, Sara Dögg Margeirsdóttir 7, Erna Hákonardóttir 5, Aníta Carter Kristmundsdóttir 5, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 4, Dísa Edwards 3/4 fráköst, Salbjörg Sævarsdóttir 0, Guðbjörg Ósk Einarsdóttir 0, Emelía Ósk Grétarsdóttir 0, Andrea Björt Ólafsdóttir 0.
Dómarar: Halldor Geir Jensson, Steinar Orri Sigurðsson
 
 
 
Umfjöllun: Sigurður Friðrik Gunnarsson
 
Fréttir
- Auglýsing -