Mikil spenna ríkti fyrir leik Borgnesinga og Garðbæinga í Fjósinu í Borgarnesi í kvöld. Heimamenn biðu spenntir eftir að sjá hvort Skallarnir gætu haldið uppteknum hætti frá sigrinum í Stykkishólmi fyrir viku síðan. Mest var þó spennan hjá áhorfendum að sjá hvort Páli Axel tækist að bæta met Guðjóns Skúlasonar yfir flestar þriggja stiga körfur í sögu deildarkeppni úrvalsdeildarinnar. Til þess þurfti hann að setja niður tvœr slíkar körfur. Pilturinn sá var ekki lengi að slá metið. Það tók hann aðeins 90 sekúndur og af því tilefni sprengdu Fjósamenn í stúkunni confetti og knöll með tilþrifum. Það var hins vegar annar Vilbergsson sem hnuplaði senunni í kvöld. Àrmann bróðir Páls var á eldi og setti niður 8 þrista í annars sanngjörnum sigri Skallagríms.
Stjörnumenn komust yfir í eina skiptið í leiknum á upphafsmínútum leiksins 3-5. Eftir það duttu Vilbergssynir í gang og komu Sköllunum yfir. Þeir voru hvor um stig komnir með 2 þrista eftir 6 mínútna leik. Staðan 24-20 eftir 10 mínútna leik. Feykilegt fum og fát var á leikmönnum beggja liða sem og dómurum í upphafi 2.leikhluta. mönnum voru nokkuð mislagðar hendur og töpuðu knettinum í gríð og erg. Einhver pirringur var í leikmönnum beggja liða og það virtist sama í hvorn fótinn dómararnir stigu. Àkvarðanir þeirra, sem reyndar margar hverjar orkuðu tvímælis, uppskáru tuð og pirring viðstaddra. Borgnesingar bættu 3 stigum við forskotið og leiddu í hálfleik 47-40.
Hafi gestirnir borið þá von í brjósti að geta slökkt í Borgnesingum í seinni hálfleik slökknaði sú von fljótlega eftir að hafa skotið upp kollinum. Í hvert skipti sem Stjörnumenn nálguðust Skallagrím að stigum kviknaði í funheitum Vilbergsbræðrum. Àrmann setti 4 þrista í 3.leikhluta og Palli var drjúgur bæði í vörn og sókn. Dagur Kár, Marvin og Justin báru Stjörnuliðið uppi og reyndu án árangurs að koma liðinu inní leikinn. Skallarnir juku forystuna um 1 stig fyrir 4. leikhluta, staðan 73-65 þegar 10 mínútur lifðu á klukkunni. Enn syrti í álinn fyrir Stjörnumenn í upphafi lokaleikhlutans og Vilbergssynir héldu uppteknum hætti í sókninni. Um miðjan leikhlutann var munurinn orðinn 13 stig 84-71. Svo virtist sem Àrmann hafi ofhitnað í hamaganginum og var hann sendur í kalda sturtu eftir að hafa fengið sína aðra óíþróttamannslegu villu. Gestirnir hleyptu þó talsverðri spennu í leikinn á lokamínútunum og minnkuðu muninn jafnt og þétt. En vel stemmdir Skallar stóðu rammir við sinn keip og sigldu dýrmætum stigum í fjós.
Àrmann setti niður 8 þrista í 13 skotum og Palli 6 í 11 skotum. Þrátt fyrir að hitta illa skilaði Ben Smith flottum tölum og var stigahæstur með 29 stig, setti niður öll 14 vítin sín í leiknum og gaf 14 stoðsendingar
Dagur Kár var bestur í liði Stjörnunnar og skilaði 20 stigum. Justin skoraði 21 stig en hefur oft verið sprækari. Marvin var þeirra stigahæstur með 28 stig og átti ljómandi góðan leik
Umfjöllun og viðtöl/ Ragnar Gunnarsson
Mynd /Ómar Örn Ragnarsson – Metaþristurinn ratar heim…þetta skot setti Pál Axel á topp listans yfir flestar skoraðar þriggja stiga körfur í deildarkeppni úrvalsdeildar.



