spot_img
HomeFréttirFriðrik Stefánsson leggur skóna á hilluna

Friðrik Stefánsson leggur skóna á hilluna

 Miðherji Njarðvíkingar til fjölda ára og fyrrum landsliðsmiðherji Íslands, Friðrik Erlendur Stefánsson hefur endanlega lagt skó sína á hilluna frægu.  Í samtali við Karfan.is sagði Friðrik að skrokkur hans hreinlega væri að hruni komin. “Þetta hófst svona fyrir alvöru fyrir ári síðan, ca janúar 2013 og ég hef meira og minna verið síðan þá að spila hnjaskaður að einhverju leyti.  Kálfi, ökkli, nári og þetta er allt svo byrjað að tengjast saman. Þannig að ég hreinlega verð bara að segja staðar numið í boltanum.” sagði Friðrik í samtali við Karfan.is
 
Einar Árni Jóhannsson sagðist að sjálfsögðu sjá á eftir Friðrik en skildi algerlega hans ákvörðun. “Friðrik hefur reynst okkur Njarðvíkingum dýrmætur og kannski fáir sem vita hversu í raun dýrmætur nú á síðustu metrunum þrátt fyrir að vera kannski ekki að skila fullum leik eða einhverjum háum tölum.”
 
“Þegar þetta er byrjað að hafa áhrif á mig í mínu daglega lífi og vinnunni þá held ég að sé bara nóg komið.  Ég skil við liðið núna í fínum höndum. Það er komin einn vel kjötaður í teiginn til að taka við keflinu og ég er þokkalega sáttur við minn feril.” sagði “Heimakletturinn” eins og hann var jafnan kallaður. 
 
Friðrik hóf sinn feril með ÍBV í Vestmannaeyjum þar sem hann sleit barnskóm sínum. Árið 1993 fer kappinn til KR og er þar undir handleiðslu Lazlo Nemeth í 2 ár. Þaðan lá leiðin á Akureyri þar sem hann spilaði fyrir Þór einhverja 6 leiki.  Eftir Akureyri lá leið Friðriks vestur á Ísafjörð þar sem hann spilaði tvö tímabil eða frá 1996 til 1998.  Eftir tvö ár fyrir vestan hélt svo kappinn til Njarðvíkur þar sem hann hefur verið síðan.  Með Njarðvík vann Friðrik til þriggja Íslandsmeistaratitla og þriggja Bikarmeistaratitla.  Friðrik spilaði svo 112 landsleiki fyrir Íslands hönd. 
 
Fréttir
- Auglýsing -