spot_img
HomeFréttirKeflvíkingar tóku grannana í kennslustund

Keflvíkingar tóku grannana í kennslustund

Rimman um Reykjanesbæ hefur eflaust valdið töluverðum vonbrigðum hjá körfuknattleiksáhugafólki nema auðvitað stuðningsmönnum Keflavíkur. Erkifjendurnir Keflavík og Njarðvík mættust í Domino´s deild karla í kvöld og miðað við fyrri leik liðanna í Ljónagryfjunni var ekkert nema konfekt að koma upp úr þessum kassa. Keflvíkingar voru einfaldlega mun sterkari og vel stemmdir, ef þeir voru ekki að keyra í bakið á grænum þá vildu þristarnir niður og Craion héldu engin bönd. Verðskuldaður sigur Keflvíkinga gegn flötum Njarðvíkingum sem hafa mátt muna sinn fífil fegurri í varnarleiknum. Konfektið kom því alfarið úr öskju Keflvíkinga sem höfðu 105-84 sigur í leiknum. Téður Craion gerði 31 stig í leiknum og tók 7 fráköst en atkvæðamestur Njarðvíkinga var Logi Gunnarsson með 25 stig. Með sigrinum komst Keflavík að nýju upp að hlið KR á toppi deildarinnar með 26 stig.
 
 
Keflvíkingar hófu leik í maður á mann vörn og ljóst að hjálparvörnin átti að vera snögg til þegar hinn stóri og stæðilegi Tracy Smith Jr. fengi boltann. Hjörtur Hrafn Einarsson fékk það verkefni að vera á tánum gegn Darrel Lewis og sóttist honum verkið seint gegn hinum síunga og léttfætta Lewis. Keflvíkingar hófu leikinn betur, Craion kom heimamönnum í 14-6 eftir sóknarfrákast og körfu og Njarðvíkingar tóku leikhlé eftir tæplega fimm mínútna leik.
 
Magnús Þór Gunnarsson kom inn í Keflavíkurliðið eftir rúmlega fimm mínútna leik og strax í fyrsta leikhluta var hann búinn að skvetta niður tveimur þristum og sá seinni kom Keflavík í 30-12 en Njarðvíkingar gerðu lokastig leikhlutans og staðan 30-14 að honum loknum og yfirburðir Keflvíkinga umtalsverðir. Njarðvíkurvörnin lak eins og gatasigti og Keflvíkingar hámuðu hana í sig á alla mögulega vegu. Tilþrif fyrsta leikhluta voru í eigu Craion með stolinn bolta og tröllatroðslu í kjölfarið, rammur að afli þessi miðherji Keflvíkinga.
 
Einar Árni Jóhannsson hefur vísast þrumað rækilega yfir sínum mönnum milli leikhluta því Njarðvíkingar gerðu fimm fyrstu stig annars leikhluta og minnkuðu muninn í 30-19. Gestirnir prófuðu sig líka áfram í svæðisvörn og héldu Keflvíkingum í aðeins einu stigi fyrstu þrjár og hálfa mínútuna í öðrum leikhluta en að sama skapi vildu skot gestanna ekki detta, átta þristar á loft, enginn rataði heim. Fyrsti Njarðvíkurþristurinn leit ekki dagsins ljós fyrr en skömmu fyrir hálfleik en þar var Logi Gunnarsson að verki og minnkaði muninn í 37-28. Heimamenn í Keflavík létu þó forystuna ekkert af hendi, leiddu 48-38 í hálfleik þó Njarðvíkingar hafi unnið annan leikhluta 18-24.
 
Skotnýting heimamanna var flott í fyrri hálfleik, 66,7% í teignum og 50% í þriggja stiga á meðan Njarðvíkingar voru með 55,6% nýtingu í teignum og 8,3% nýtingu í þriggja eða 1 af 12 skotum. Michael Craion var svakalegur í fyrri hálfleik með 16 stig og 6 fráköst og Tracy Smith var langmest ógnandi í liði Njarðvíkinga með 15 stig og 4 fráköst en bakvarðasveit Njarðvíkinga hefði betur leitað meira inn á Tracy í fyrri hálfleik þar sem skot grænna virtust lítinn áhuga á því að fara ofaní.
 
Keflvíkingar settu upp sýningu í upphafi síðari hálfleiks, 7-0 demba og innifalið í henni var hárfín „alley-up“ stoðsending frá Arnari Frey Jónssyni sem lyktaði með öflugri troðslu frá Craion sem læddi sér upp endalínuna og hamraði yfir Njarðvíkurvörnina. Tilþrifasúpa sem Njarðvíkingar áttu einfaldlega ekki roð í. Til að bæta gráu ofan á svart fékk Tracy Smith Jr., eina raunverulega ógn Njarðvíkinga í leiknum, sína fjórðu villu fyrir litlar sakir og hélt skömmu síðar á bekkinn. Gunnar Ólafsson fann svo Reykjanesbæjarfjölina og sallað niður nokkrum góðum þristum og Valur Orri Valsson bætti við öðrum og kom Keflvíkingum í 77-56. Heimamenn létu 33 stigum rigna yfir Njarðvíkinga í þriðja leikhluta og þar með var einvígið bara búið, stemmningin mun meiri í heimamönnum, jafnt á parketinu sem og á bekknum.
 
Í fjórða leikhluta var munurinn einfaldlega orðinn of mikill, Keflvíkingar höfðu beygt gestina undir sinn vilja og það tók aðeins 30 mínútur. Gunnar Ólafsson annan erkifjendaslaginn í röð lék eins og herforingi en hann, Lewis og Craion voru Njarðvíkingum um megn. Arnar Freyr Jónsson stýrði Keflvíkingum af miklum myndarbrag og heimamenn léku Njarðvíkurvörnina ansi grátt á köflum, jafnvel það hvort eða hvernig menn bæru sig að við að skipta á skrínum í Njarðvíkurliðinu virtist flækjast fyrir þeim og þannig vandræðagangur líður ekki um garð án refsingar á heimavelli Keflvíkinga.
 
Kalt mat, rimman sem slík olli vonbrigðum enda bjuggust og vonuðust flestir eftir hádramatískum leik sem aldrei varð, 30-14 eftir fyrsta leikhluta og einkasýning Keflavíkur fékk auðvitað góðar viðtökur hjá stuðningsmönnum klúbbsins.
 
Punktar um leikinn
 
*Halldór Örn Halldórsson leikmaður Njarðvíkur fagnaði 30 ára afmæli sínu í dag.
*Magnús Þór Gunnarsson snéri aftur í lið Keflavíkur eftir meiðsli.
*Liðin voru dugleg að stokka upp varnir sínar, skiptu reglulega milli svæðisvarnar og maður á mann varnar í leiknum.
*Njarðvíkingar settu niður sinn fyrsta þrist í leiknum í tíundu tilraun!
*Þröstur Leó Jóhannsson lék ekki með Keflavík í kvöld vegna ökklameiðsla.
*Keflvíkingar voru með 48% nýtingu í þriggja stiga í kvöld.
*Njarðvíkingar voru með 24% nýtingu í þriggja stiga í kvöld.
 
 
Keflavík-Njarðvík 105-84 (30-14, 18-24, 33-24, 24-22)
 
Keflavík: Michael Craion 31/7 fráköst/4 varin skot, Darrel Keith Lewis 24/7 fráköst, Gunnar Ólafsson 20/4 fráköst, Magnús Þór Gunnarsson 12/4 fráköst/6 stoðsendingar, Valur Orri Valsson 9/6 stoðsendingar, Arnar Freyr Jónsson 4/4 fráköst/8 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson 3, Andri Daníelsson 2, Aron Freyr Kristjánsson 0, Hafliði Már Brynjarsson 0, Hilmir Gauti Guðjónsson 0, Sigurþór Ingi Sigurþórsson 0.
Njarðvík: Logi Gunnarsson 25, Elvar Már Friðriksson 21/5 fráköst/5 stoðsendingar, Tracy Smith Jr. 19/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 6/6 fráköst, Ágúst Orrason 5, Hjörtur Hrafn Einarsson 4, Óli Ragnar Alexandersson 2, Maciej Stanislav Baginski 2, Halldór Örn Halldórsson 0, Egill Jónasson 0, Brynjar Þór Guðnason 0, Magnús Már Traustason 0.
Dómarar: Jón Bender, Eggert Þór Aðalsteinsson, Leifur S. Garðarsson
 
Staðan í deildinni
Nr. Lið U/T Stig
1. KR 13/1 26
2. Keflavík 13/1 26
3. Grindavík 10/4 20
4. Njarðvík 9/5 18
5. Þór Þ. 8/6 16
6. Stjarnan 7/7 14
7. Haukar 7/7 14
8. Snæfell 5/9 10
9. ÍR 4/10 8
10. Skallagrímur 4/10 8
11. KFÍ 3/11 6
12. Valur 1/13 2
 
  
Mynd/ [email protected] – Gunnar Ólafsson lék vel í Keflavíkurliðinu í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -