Konungsbikarinn á Spáni í körfuknattleik fer fram dagana 6.-9. febrúar næstkomandi. Jón Arnór Stefánsson og CAI Zaragoza mæta Unicaja í 8-liða úrslitum fimmtudaginn 6. febrúar næstkomandi. Gera má ráð fyrir svakalegum slag en Zaragoza er í 6. sæti ACB deildarinnar og Unicaja í því fjórða.
Konungsbikarinn á rætur sínar að rekja aftur til ársins 1933 sem fyrsta landskeppnin á Spáni í körfuknattleik. Fyrst bar keppnin nafnið Copa de Espana de Baloncesto og á tíma Franco á Spáni bar keppnin nafnið Copa del Geniralísimo áður en hún öðlaðist núverandi nafn, Konungsbikarinn, Copa del Rey árið 1977.
Rétt eins og í deildarkeppninni á Spáni eru tvö lið sem bera höfuð og herðar yfir önnur þegar kemur að árangri í keppninni en stórveldi Real Madrid og Barcelona hafa hvort um sig unnið Konungsbikarinn 23 sinnum.
Barcelona vann öruggan sigur í Konungsbikarnum á síðustu leiktíð með 85-69 sigri á Valencia þar sem hinn bandaríski Pete Mickeal var valinn maður leiksins. Frá því keppni hófst með núverandi fyrirkomulagi sem ACB deildin í deildarkeppninni tímabilið 1986-1987 hafa aðallega Spánverjar og Bandaríkjamenn verið valdir bestu menn úrslitaleiksins en stöku Króati, leikmenn úr gömlu Júgóslavíu, Argentínu og Bosníu hafa þó lætt sér í hlutverk besta leikmannsins. Sem dæmi má nefna að Pau Gasol leikmaður LA Lakers var valinn besti maður úrslitaleiksins tímabilið 2000-2001 í sigri Barcelona gegn Real Madrid.
Undanúrslit Konungsbikarsins á Spáni 6.-9. febrúar:
Fimmtudagur 6. febrúar:
Real Madrid – Gran Canaria
Unicaja – CAI Zaragoza
Sigurvegarar úr ofangreindum leikjum mætast í undanúrslitum.
Föstudagur 7. febrúar
Barcelona – Tenerife
Valencia – Laboral Kutxa
Sigurvegarar úr ofangreindum leikjum mætast í undanúrslitum.



