spot_img
HomeFréttirTvöfaldir meistarar ráðþrota í DHL-Höllinni

Tvöfaldir meistarar ráðþrota í DHL-Höllinni

KR rassskellti Keflavík í Domino´s deild kvenna í kvöld. Lokatölur 92-68 KR í vil sem með góðri stemmningu í vörninni og fjölbreyttu framlagi sýndu að þær eiga fullt erindi í úrslitakeppnina. Þangað verður þó ekki komist svo auðveldlega en það er stígandi í röndóttum á meðan Keflvíkingar mega spýta í lófana.
 
 
Næstum þrjár mínútur tók hjá liðunum að finna fyrstu stig leiksins en það gerði Bergþóra Tómasdóttir Holton með þriggja stiga körfu fyrir KR-inga. Liðin skiptust á forystunni í upphafi leiks en KR leiddi 18-15 að loknum fyrsta leikhluta.
 
Varnarleikur heimakvenna var flottur í upphafi leiks og svo var áfram í öðrum leikhluta enda sigu KR-ingar hægt og bítandi framúr. Sóknarvopn Keflavíkur voru alls ekki að finna taktinn og þegar tvær sekúndur lifðu af fyrri hálfleik setti Anna María Ævarsdóttir niður þrist fyrir KR sem leiddu 46-33 í fyrri hálfleik.
 
Ebone Henry var stigahæst hjá KR í hálfleik með 13 stig og KR-ingar gátu vel við unað allar sem ein með flottan varnarleik. Hjá Keflavík var Sara Rún Hinriksdóttir með 12 stig.
 
Flestir hefðu búist við því að tvöfaldir meistarar Keflavíkur myndu nú rífa sig upp í leikhléi og mæta dýrvitlausar inn í síðari hálfleik en KR-ingar voru ekkert á þeim buxunum að hleypa þeim nærri. Sara Rún Hinriksdóttir virtist ein með lífsmarki í liði Keflavíkur á meðan allt gekk upp hjá KR. Skotin vildu niður, vörnin var vel stemmd og munurinn gerði lítið annað en að aukast og var 22 stig, 73-51 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Síðustu tíu mínútur leiksins voru aldrei spennandi, yfirburðir KR-inga voru umtalsverðir og röndóttar virtust skemmta sér hið besta. Barátta og flott vörn og fyrir vikið vildu skotin niður svo tvöfaldir meistarar Keflavíkur urðu að játa sig gersigraða. KR hafa mest skorað 96 stig á tímabilinu og hjuggu ansi nærri því í kvöld þar sem lokatölur voru 92-68 KR í vil.
 
Keflvíkingar vilja örugglega afgreiða þennan leik úr sínu minni sem fyrst. Sara Rún leiddi þær með 26 stig og Bryndís Guðmundsdóttir gerði 17 stig og tók 13 fráköst en frumkvæði Keflvíkinga og ímyndunarafl var ekki fyrir hendi í sóknarleiknum gegn grimmri vörn KR.
 
Sigur KR var þýðingarmikill þar sem Valur lá í Hveragerði og tókst KR að minnka muninn á Val niður í 2 stig en Valur er í 4. sæti núna með 18 stig og KR 16 og sömuleiðis Hamar sem hafði betur gegn Val í kvöld. Baráttan um síðasta sætið í úrslitakeppninni á því bara eftir að harðna.
 
 
Mynd/ [email protected] – Þjarkurinn Björg Guðrún var iðin við kolann í kvöld og barátta hennar smitaði vel frá sér og út í KR hópinn.
  
Fréttir
- Auglýsing -