Í kvöld unnu Njarðvíkingar sterkan sigur á Þórsurum úr Þorlákshöfn, 100-73. Fyrir leikinn voru liðin í 4. og 5. sæti með tveggja stiga millibili Njarðvík í hag, svo Njarðvíkingar juku forystu sína á Þórsara í fjögur stig með sigrinum.
Njarðvíkingar náðu taki á leiknum fljótlega og voru komnir með tíu stiga forystu þegar um átta mínútur voru liðnar af leiknum. Þórsarar virtust þó aldrei langt undan og Tómas Tómasson blés góðu lífi í gestina með fjórum stigum í röð undir lok fyrsta fjórðungs. Staðan eftir tíu mínútur 23-15 heimamönnum í vil.
Tracy Smith skoraði fyrstu sex stig annars leikhluta og átti meðal annars, samkvæmt heimildum undirritaðs, sína fyrstu troðslu í leik síðan hann lenti á klakanum. Njarðvíkingar héldu áfram af fullum krafti og fyrstu fjórar mínúturnar fóru 15-6 fyrir heimamenn. Þegar þarna er komið við sögu voru Njarðvíkingar, sem klæddust appelsínugulum treyjum, komnir með nokkuð góða forystu og hálfleikstölur 50-34.
Þórsarar komu mun kraftmeiri inn í þriðja leikhlutann og náðu að minnka muninn í 9 stig, en þrátt fyrir villuvandræði Loga Gunnarssonar náðu Njarðvíkingar að svara áhlaupinu undir handleiðslu Tracy Smith en hann splæsti í aðra troðslu í þriðja leikhluta. 72-57 var staðan eftir þrjátíu mínútur, nú var spurningin hvort Þórsarar ættu áhlaup til í sér.
Nei, gestunum virtist ekki ætlað að komast nær Njarðvíkingum, sem sigldu nokkuð lygnan sjó gegnum fjórða leikhlutann og kláruðu dæmið vel. Niðurstaðan var 100-73 sigur fyrir Njarðvíkinga, sem eru nú í 3. til 4. sæti með 20 stig, en Þór er í því fimmta með 16 stig.
Umfjöllun: AE
Mynd: [email protected]



